Innlent

Bagalegt að ágreiningur sé á milli landlæknis og ráðuneytisins

Gunnar Atli Gunnarsson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifa
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, segir túlkunarágreining vera á milli Landlæknisembættisins og Heilbrigðisráðuneytisins.
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, segir túlkunarágreining vera á milli Landlæknisembættisins og Heilbrigðisráðuneytisins. Mynd/Ernir
„Það er náttúrulega bagalegt að það skuli vera uppi túlkunarágreiningur um lögin,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. „Þau eiga að vera skýr og það þarf kannski að skoða það að skýra þau,“ segir hann.

Landlæknisembættið segir í harðorðu bréfi að túlkun heilbrigðisráðuneytisins á heilbrigðislögunum geri það að verkum að einkarekstur og einkavæðing á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu geti haldið áfram að vaxa hér á landi, meðal annars í krafti þess að sjúklingar greiði aðgerðir dýru verði úr eigin vasa.Útgjöld ríkisins til einkareksturs hafa aukist um 40 prósent á síðastliðnum árum, meðan þau hafa nánast staðið í stað til opinbers reksturs.

Sjá einnig: Landlæknir segir einkarekstur nánaststjórnlausan

Klíníkin Ármúla fékk í janúar staðfestingu frá embætti landlæknis á að starfsemi með fimm daga legudeild uppfyllti faglegar lágmarkskröfur, meðal annars um mönnun, húsnæði og tæki.

Birgir Jakobsson, landlæknir, segir einkarekstur í heilbrigðiskerfinu stjórnlausan.Vísir/Stefán
Í kjölfarið hófst umræða um hvort starfsemin þyrfti leyfi frá heilbrigðisráðherra. Skoðun landlæknis var sú að um væri að ræða sérhæfða sjúkrahúsþjónustu og því þyrfti lögum samkvæmt leyfi ráðherra.

Velferðarráðuneytið var þessu ósammála og taldi að líta bæri á þennan rekstur Klíníkurinnar sem hvern annan stofurekstur lækna og því væri ekki þörf á leyfi ráðherra.

„Það er túlkun ráðuneytisins í þessu tilviki að þá heyri þessu starfsemi undir lög um starfsstöð heilbrigðisstétta en sé ekki sérhæft sjúkrahús. Út frá þeim lögum og þeirri túlkun störfum við,“ segir Óttarr. „En það er bagalegt að það skuli vera uppi ágreiningur á milli ráðuneytis og Landlæknisembættisins. Það þarf að athuga það hvort að þurfi að skoða lögin og skýra. Ef að það er niðurstaðan þa einhendum við okkur í það vegna þess að það er mjög mikilvægt að þetta sé skýrt,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×