Lífið

Mads Mikkelsen kveður Ísland eftir 22 spennuþrungna daga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mads Mikkelsen kemst í hann krappan.
Mads Mikkelsen kemst í hann krappan. Armory Films

Danski stórleikarinn Mads Mikkelsen og aðstandendur hrakningamyndarinnar Arctic hafa lokið tökum hér á landi. Tökur stóðu í 22 daga og fóru fram við Nesjavelli og Fellsendavatn skammt frá Þórisvatni eins og fram kemur í frétt Klapptrés um málið.

Myndin er spennutryllir sem segir frá raunum strandaglóps á Norðurheimsskautinu sem býður björgunar. Þegar leiðangurinn fer út um þúfur þarf maðurinn að gera það upp við sig hvort hann eigi að halda af stað út í óvissuna eða sitja um kyrrt í búðunum sínum segir á vef Deadline.

Joe Penna leikstýrir og skrifar handrit ásamt Ryan Morrison en Pegasus og kvikmyndagerðarmaðurinn Einar Þorsteinsson eru meðal framleiðenda.

Þá fer María Thelma Smáradóttir með hlutverk í myndinni og starfsliðið var nær eingöngu skipað Íslendingum eins og Klapptré greinir frá. Tómas Örn Tómasson sá um kvikmyndatöku, Atli Geir Grétarsson og Gunnar Pálsson gerðu leikmynd, Margrét Einarsdóttir sá um búninga og Ragna Fossberg um förðun.

Þetta er annað árið í röð sem Mads Mikkelsen er hér við tökur en hann, ásamt íslensku landslagi, lék stóra rullu í nýjustu mynd Star Wars-bálksins, Rogue One.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira