Innlent

Fengu persónulega afsökunarbeiðni og bensínkostnaðinn endurgreiddan

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Dóttir Berglindar Elíasdóttur var skilin ein eftir á hóteli í Varmahlíð.
Dóttir Berglindar Elíasdóttur var skilin ein eftir á hóteli í Varmahlíð. Vísir/aðsent

Framkvæmdastjóri Strætó hefur beðið Berglindi Elíasdóttur og 16 ára dóttur hennar afsökunar á því hvernig fyrirtækið brást við frétt Vísis þess efnis að dóttirin hefði verið skilin eftir í Varmahlíð á miðvikudag. Þá hefur eldsneytiskostnaður Berglindar milli Akureyrar og Varmahlíðar verið endurgreiddur.

Stúlkan fékk þær upplýsingar að hún yrði sótt með næsta vagni sem myndi stoppa í Varmahlíð, en vagnstjóri þeirrar ferðar fékk engin skilaboð um að sækja ætti stúlkuna. 

Sjá einnig: Stúlka stungin af og skilin ein eftir á mannlausu hóteli.

Frétt Vísis af málinu í gær vakti mikla athygli og hörð viðbrögð, eins og athugasemdakerfi fréttarinnar ber með sér. 

Stúlkan var á leið frá Reykjavík til Akureyrar á miðvikudagskvöld en í Varmahlíð komst strætóinn ekki lengra vegna ófærðar. Var ákveðið var að stúlkan og strætóbílstjórinn, sem voru tvö eftir í strætónum, myndu gista á hóteli í Varmahlíð yfir nótt.

Strætó útvegaði og greiddi gistinguna og ferð hennar átti síðan að halda áfram með sama vagni daginn eftir.

„Morguninn eftir þóttu aðstæður á Öxnadalsheiði ennþá nokkuð erfiðar og því var tekin ákvörðun að láta vagninn sem stúlkan kom upphaflega með keyra suður til Reykjavíkur og hún myndi taka næsta vagn sem var á leið til Akureyrar. Sá vagn var áætlaður í Varmahlíð klukkan 14:18,“ segir í yfirlýsingu frá Strætó.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. Mynd/Strætó

„Stúlkan fékk þau skilaboð að hún yrði sótt á hótelið og því bjóst hún við símtali frá Strætó þegar vagninn kæmi eða að einhver myndi koma inn á hótel og ná í hana. Vagnstjórinn sem kom klukkan 14:18 fékk hins vegar ekki nein skilaboð um farþega sem þurfti að sækja sérstaklega og hélt því sinni reglubundnu áætlun áfram. Atvikið var frávik á þjónustu Strætó sem kallaði á aukna eftirfylgni, en því miður brást fyrirtækið í samskiptum sínum innbyrðis og við Berglindi," útskýrir Strætó ennfremur.

Þar kemur jafnframt fram að Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, hafi haft samband við Berglindi í morgun og bað hann mæðgurnar persónulega afsökunar. 

„Ég var ekki með nægilegar upplýsingar um málið þegar blaðamaður hringdi í mig klukkan 22:00 í gærkvöldi. Upphaflega heyrði ég að stúlkan hefði einfaldlega ekki mætt á stoppistöðina þegar vagninn kom klukkan 14:18. Ég hefði mátt vanda orðavalið betur þegar ég sagði að við værum ekki að halda í höndina á viðskiptavinum. Svar mitt átti að endurspegla meginreglu almenningssamgangna um að viðskiptavinir bera ábyrgð á að koma sér á biðstöðvar o.sfrv. Mál stúlkunnar var óvenjulegt frávik á þjónustu okkar og hefðum við átt að halda betur í hönd dóttur Berglindar en meginreglan segir til um,“ segir Jóhannes í yfirlýsingunni sem lesa má hér að neðan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira