Enski boltinn

Svanirnir þurfa sigur | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjórir leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í dag, þar af þrír sem hafa mikið að segja í fallbaráttunni. Leikirnir hefjast allir klukkan 14:00.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City taka á móti Stoke City. Eftir að hafa byrjað vel undir stjórn Pauls Clement hefur Swansea verið í frjálsu falli að undanförnu.

Swansea vann síðast leik 4. mars og hefur aðeins fengið eitt stig úr síðustu sex leikjum sínum.

Swansea er í 18. sæti deildarinnar tveimur stigum á eftir Hull City sem fær Watford í heimsókn.

Hull hefur tapað tveimur leikjum í röð með markatölunni 6-2 á meðan Watford hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum.

Middlesbrough sækir Bournemouth heim á Vitaly völlinn. Boro er eina liðið í efstu fjórum deildunum á Englandi sem hefur ekki unnið leik á árinu 2017. Boro er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með 24 stig, sex stigum frá öruggu sæti.

Bournemouth er sjö stigum frá fallsæti og fer langt með að bjarga sér með sigri í dag.

Þá mætir eitt heitasta lið deildarinnar, Everton, West Ham United á Lundúnaleikvanginum. Everton fer upp í 5. sætið með sigri í dag.

Leikir dagsins:

14:00 Swansea - Stoke (beint á Stöð 2 Sport 2 HD)

14:00 Hull - Watford (frumsýning klukkan 20:00 á Sport 2 HD)

14:00 Bournemouth - Middlesbrough (frumsýning klukkan 18:15 á Sport 2 HD)

14:00 West Ham - Everton (frumsýning klukkan 16:15 á Sport HD)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×