Íslenski boltinn

Erfitt sumar í fiskibæjunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ejub Purisevic og lærisveinar hans í Ólafsvík kveðja deildina ef spáin rætist að þessu sinni en Ólsarar voru nýliðar í fyrra.
Ejub Purisevic og lærisveinar hans í Ólafsvík kveðja deildina ef spáin rætist að þessu sinni en Ólsarar voru nýliðar í fyrra. vísir/eyþór
Íþróttadeild 365 opinberar hér að ofan og neðan hvaða liðum hún spáir 8. og 9. sæti Pepsi-deildar karla í fótbolta í sumar. Víkingar í Reykjavík og Eyjamenn halda sætum sínum en eins og kom fram á síðustu dögum er Grindavík og Ólafsvíkingum spáð falli en ÍA gælir við það og hafnar í 10. sæti ef spáin rætist.

Fallbaráttan gæti orðið spennandi í sumar en aðeins annar nýliðinn, Grindavík, er talinn þurfa að berjast við falldrauginn. KA-menn koma mun betur mannaðir til leiks og hafa ekki enn birst í spá íþróttadeildar.

Fiskiþorpin falla

Grindvíkingar hafa styrkt sig ágætlega en byggja ekki á sama svakalega grunni og Akureyringarnir. Í liðinu er mikið um leikmenn sem hafa aldrei sannað sig í deild þeirra bestu og má búast við erfiðu sumri í Grindavík.

Það sama má segja um Ólafsvík en lærisveinar Ejubs Purisevic eru í neðsta sæti í flestum spám sem birst hafa fyrir mótið. Þeir hafa misst sterka leikmenn og lofa ekki nógu góðu fyrir sumarið. Liðið hélt sér í raun uppi á frábærri byrjun á síðustu leiktíð og mörkum Hrjve Tokic sem er nú farinn frá liðinu í Breiðablik.

Ólafsvíkurliðið skoraði ekki nema 23 mörk í fyrra og hefur ekki bætt við sig alvöru markaskorurum. Það bendir því ekkert til þess að liðið geti leikið sama leik og í byrjun mótsins í fyrra. Það vann svo ekki í tíu leikjum í röð í seinni hlutanum áður en það hélt sér uppi.

Sama góða sagan á Skaganum?

Skagamenn urðu fyrir miklu áfalli við að missa Ármann Smára Björnsson og Iain Williamson fyrir mótið en báðir lögðu skóna á hilluna. Skagamenn þurftu að leita út fyrir landsteinana til að fylla í skörðin og eru því meira spurningarmerki en áður.

Þrír af fjórum bestu leikmönnum Skagans í fyrra; Árni Snær í markinu og tveir fyrrnefndir, eru allir frá en Ingvar Þór Kale er mættur í markið á Skaganum.

Gunnlaugur Jónsson hefur gert ótrúlega hluti með ÍA-liðið og gæti gert aðra eins hluti af erlendu leikmennirnir standa sig, en stuðningsmenn ÍA ættu ekki að búast við alltof góðu tímabili þetta sumarið.

Aftur nýr þjálfari

Fimmta árið í röð mætir ÍBV með nýjan þjálfara til leiks en Kristján Guðmundsson er tekinn við liðinu. Kristján hefur sjálfur ýmislegt að sanna en lítið hefur gerst hjá honum síðan hann gerði Keflavík næstum því að Íslandsmeistara árið 2008.

Eyjamenn eru áfram með mjög sterka varnarlínu en þá vantar markaskorara. Mættur til starfa er tvítugur Bliki, Arnór Gauti Ragnarsson og vonast er til þess að Gunnar Heiðar Þorvaldsson geti beitt sér eitthvað af viti.

Eyjamenn fá mjög þægilega byrjun á mótinu þar sem þeir verða að safna stigum en svo þarf stemningin að halda því þrátt fyrir góða byrjun í fyrra voru Eyjamenn hársbreidd frá því að falla en björguðu sér á lokametrunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×