Lífið

Ganga fyrir vísindi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Kalina Karpalova vísindamaður við Líffræðideild HÍ, Anna Heiða Ólafsdóttir, í stjórn Samtaka kvenna í vísindum, Bryndís Marteinsdóttir, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags, Erna Magnúsdóttir, forseti Vísindafélags Íslendinga, Sigrún Ólafsdóttir, félagsfræðingur og prófessor við HÍ, og Henning Úlfarsson, stærðfræðingur og lektor við HR.
Kalina Karpalova vísindamaður við Líffræðideild HÍ, Anna Heiða Ólafsdóttir, í stjórn Samtaka kvenna í vísindum, Bryndís Marteinsdóttir, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags, Erna Magnúsdóttir, forseti Vísindafélags Íslendinga, Sigrún Ólafsdóttir, félagsfræðingur og prófessor við HÍ, og Henning Úlfarsson, stærðfræðingur og lektor við HR. Visir/GVA
Hugmyndin að vísindagöngu á Degi jarðar kviknaði í Bandaríkjunum í tilefni af ákvörðunum Donalds Trump um að virða vísindi á sviði loftslagsmála að vettugi. Úr henni varð alþjóðahreyfing svo í dag verður gengið víða um lönd í þágu vísindanna. Í Reykjavík verður lagt upp frá Skólavörðuholti klukkan 13.

Erna Magnúsdóttir er forseti Vísindafélags Íslendinga. Hún segir niðurskurð fjármagns til vísindaiðkana í Bandaríkjunum hafa víðtæk áhrif og takmarka möguleika fólks til að stunda rannsóknir og miðla þekkingu sinni.

„Ef Bandaríkjastjórn ætlar í alvörunni að afneita loftslagsvísindum þá snertir það alla á jörðinni, meðal annars okkur Íslendinga,“ segir hún og heldur áfram: „Bandaríkjamenn setja tóninn í stóru samhengi, bæði menga þeir þjóða mest en hafa líka verið leiðandi á flestum sviðum vísinda lengi, þannig að ef þeir draga úr stuðningi við rannsóknir og uppgötvanir þá hefur það áhrif um allan heim.“

Erna segir háskólana hér á landi búa við viðvarandi niðurskurð sem einnig hafi áhrif á rannsóknir. „Búið er að gefa okkur loforð í meira en áratug um að við ætlum að ná meðaltali OECD-landanna í fjárframlögum til vísinda en það er alltaf svikið. Ný ríkisstjórnar­áætlun sýnir svart á hvítu að ekki eigi að standa við þau nú. Það telst ekki metnaðarfull stefna því mörg OECD-landanna eru mun fátækari en Ísland.“

Annað sem gangan stendur fyrir er krafa um að teknar séu upplýstar ákvarðanir sem byggja á staðreyndum, meðal annars á Alþingi að sögn Ernu. „Það er ekki nóg að hlusta á fræðafólk þegar það hentar og tala það svo niður þegar rannsóknir þess passa ekki eigin skoðunum. Skemmst er að minnast umræðunnar á þingi um nýlegt áfengisfrumvarp. Þar var gert lítið úr faraldsfræðilegum niðurstöðum rannsókna á sölu áfengis í matvöruverslunum. Við viljum koma vísindum á dagskrá því við notum vísindi í lífinu, sama hvað okkur finnst.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×