Enski boltinn

Chelsea í úrslit enska bikarsins eftir ótrúlegan leik

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Willian kom Chelsea yfir á Wembley með frábærri aukaspyrnu.
Willian kom Chelsea yfir á Wembley með frábærri aukaspyrnu. vísir/getty
Chelsea vann 4-2 sigur á nágrönnum sínum í Tottenham í ótrúlegum undanúrslitaleik enska bikarsins sem lauk á Wembley rétt í þessu en þrátt fyrir að Tottenham hafi á löngum köflum verið sterkari aðilinn þá var það Chelsea sem komst áfram.

Antonio Conte ákvað að hvíla tvær af stjörnum liðs síns, Eden Hazard og Diego Costa en brasilíski kantmaðurinn Willian kom inn í stað Hazards og var ekki lengi að láta til sín taka.

Kom hann Chelsea yfir á 5. mínútu úr aukaspyrnu en Harry Kane svaraði um hæl fyrir Tottenham með skalla á 18. mínútu. Willian var aftur á ferðinni undir lok venjulegs leiktíma þegar hann kom Chelsea yfir af vítapunktinum og var staðan því 2-1 í hálfleik, Chelsea í vil.

Ungstirnið Dele Alli jafnaði metin á nýjan leik á 52. mínútu af stuttu færi eftir stórkostlega sendingu frá Christian Eriksen og voru leikmenn Tottenham líklegri til að sigla sigrinum heim á þessum tímapunkti.

Conte kallaði á kanónurnar tvær, Costa og Hazard á þessum tímapunkti og það tók Hazard aðeins fimmtán mínútur að koma Chelsea yfir á nýjan leik, féll boltinn þá fyrir fætur hans við vítateigslínuna og lagði hann boltann í fjærhornið.

Fimm mínútum síðar gerði Nemanja Matic út um leikinn með frábæru marki en þá lagði Hazard boltann fyrir Matic 30 metrum frá marki og sá serbneski hamraði boltann í netið, slánna-inn. Óverjandi fyrir Lloris í marki Tottenham.

Tottenham reyndi að klóra í bakkann á lokamínútum leiksins og komst Harry Kane nálægt með aukaspyrnu sinni í eitt skiptið en forskot Chelsea haggaðist ekki og fögnuðu lærisveinar Conte því sigrinum.

18:07 Kane nálægt því að minnka muninn. Thiabaut Courtois heldur ekki aukaspyrnu hans en hreinsar af línunni! Stuttu síðar flautar dómari leiksins leikinn af.

17:55 Matic að klára þetta með geeeegggjuðu marki! Hazard leggur boltann fyrir hann 25-30 metrum frá marki og hann lætur vaða, sláin inn. Óverjandi fyrir Lloris.

17:49 Líkt og varað var við! Hornspyrna Chelsea fellur fyrir fætur Eden Hazard og sá belgíski skorar framhjá Hugo Lloris. Hornspyrnan fer af Kyle Walker á Hazard við vítateigslínuna og hann klárar færið vel.

17:45 Tottenham liggur á Chelsea þessa stundina og virðast vera líklegri en leikmenn Chelsea geta auðveldlega refsað með góðri skyndisókn.

17:35
Hér koma kanónurnar hjá Chelsea. Eden Hazard og Diego Costa eru að gera sig klára og koma inn fyrir Batshuayi og Willian. Engin þrenna á brasilíumanninn í dag.

17:27 Tottenham jafnar metin strax í upphafi seinni hálfleiks! Eriksen með aðra konfekt-stoðsendingu, núna á Dele Alli sem stingur sér fram fyrir varnarmenn Chelsea og stýrir boltanum í netið af stuttu færi. Frábær.

17:05 Lærisveinar Antonio Conte fara sáttari inn í hálfleikinn með 2-1 forskot þrátt fyrir að hafa ekkert spilað neitt frábærlega. Tottenham hefur stýrt umferðinni en tvö mörk frá brasilíska kantmanninum þýða að Chelsea leiðir í hálfleik.

16:58 Vítaspyrna dæmd á Son! Straujar Victor Moses að óþörfu við vítateigslínuna og vítaspyrna dæmd. Batshuayi vill taka vítið en Azpilicueta tekur af honum boltann og réttir Willian boltann sem kemur honum í netið og kemur Chelsea yfir aftur!

16:45 Aðeins búið að róast yfir leiknum, stöðva þurfti leik í fimm mínútur áðan á meðan litið var á David Luiz en Dele Alli virtist traðka á honum en sleppa með það.

16:34 Kane jafnar metin! Var búinn að ógna í sókninni áður og hann skallar svo fyrirgjöf Christian Eriksen í fjærhornið.

16:32 Frábær fyrirgjöf inn á Batshuayi en hann kemur engum krafti í skallann og Lloris grípur þetta. Tottenham búið að vera meira með boltann en leikmenn Chelsea eru alltaf tilbúnir fyrir skyndisókn.

16:24 Kante grípur Dier í landhelgi en Tottenham sleppur með skrekkinn. Vinnur boltann af Dier í vítateignum en Alderweireld lokar vel á sendinguna inn á Batshuayi.

16:20 Þetta var ekki lengi gert! Aukaspyrna dæmd á Tottenham utan teigs og Willian kemur og leggur boltann í fjærhornið. Martraðabyrjun fyrir Tottenham.



16:15
Þá hefjum við leik á Wembley, það er falleg athöfn til minnis Ugo Ehiogu fyrir leik en Ehiogo sem var miðvörður enska landsliðsins meðal annars lést í vikunni í störfum sem þjálfari hjá Tottenham.

Fyrir leik: Tottenham ekki með eiginlegan vinstri bakvörð inná, Ben Davies situr á bekknum. Spurning hvort Vertonghen verði í bakverðinum eða að Tottenham sé að tefla fram þremur miðvörðum í 3-5-2 kerfi.

Fyrir leik: Stóru fréttirnar eru þær að Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, hvílir Diego Costa og Eden Hazard. Michy Batshuayi fær sjaldgæft tækifæri í fremstu víglínu en Willian tekur sæti Hazard. Þá fær Nathan Ake tækifærið í miðri vörn Chelsea.

Fyrir leik: Góðan daginn og velkomin með okkur í beina lýsingu frá leik Chelsea og Tottenham í undanúrslitum FA-bikarsins á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×