Erlent

Ætla að taka aðmírálinn í gegn

Samúel Karl Ólason skrifar
Admiral Kuznetsov á siglingu.
Admiral Kuznetsov á siglingu. Vísir/AFP
Rússneska flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov er á leið í slipp. Til stendur að gera miklar endurbætur á skipinu og nútímavæða það. Verkið hefst í september og talið er að það muni kosta tæpa 40 milljarða rúbla, sem samsvarar um 80 milljörðum króna.

Þetta hefur TASS fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, eftir heimildum. Til stendur að verkefninu ljúki í lok ársins 2020.

Samkvæmt fréttaveitunni verður eldflaugakerfi skipsins skipt út auk allra raftækja. Þá verða breytingar gerðar á flugbraut skipsins til að auka öryggi við flugtak og lendingar.

Kuznetsov er eina flugmóðurskip Rússlands og var því siglt að ströndum Sýrlands um miðjan nóvembermánuð. Það var í fyrsta sinn sem að skipið var notað til bardagaaðgerða og tvær orrustuþotur af þeim sem voru á flugmóðurskipinu fórust í þeim aðgerðum.

SU-33 þota brotlenti í miðjarðarhafið í desember á leið til Kuznetsov eftir loftárásir í Sýrlandi. Þá brotlenti MiG-29 í sjónum þegar flugmaður hennar reyndi að lenda á Kuznetsov.

Skömmu eftir að flugmóðurskipið kom að ströndum Sýrlands bárust fregnir af því að flugvélar skipsins væru komnar í land og að þeim væri þess í stað flogið frá Humaymim herstöðinni í Latakia héraði. Tass segir hins vegar að farið hafi verið 420 flug frá skipinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×