Handbolti

Taprekstur hjá HSÍ og sambandið í skuld | Guðmundur sjálfkjörinn á ný

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ. Vísir/Valli
Í dag fór fram 60. ársþing Handknattleikssambands Íslands en engar stórvægilegar breytingar áttu sér stað. Þá var Guðmundur B. Ólafsson sjálfkjörinn formaður á nýjan leik.

Kemur þetta fram í fréttatilkynningu sem HSÍ sendi frá sér nú fyrir stuttu. Er þetta í annað skiptið sem Guðmundur er sjálfkjörinn í embættið en hann tók við því árið 2013 eftir að hafa verið varaformaður áður fyrr.

Var greint frá því að velta sambandsins á síðasta ári hafi verið rúmlega tvö hundruð milljónir, 206.216.217 en félagið hafi verið rekið í tapi upp á 9.412.283.

Þýðir það að sambandið er í skuld eftir árið en eigið fé sambandsins er neikvætt um 2.658.554 að árinu loknu.

Davíð B. Gíslason, Hjalti Þór Hreinsson, Hjördís Guðmundsdóttir og Þorbergur Aðalsteinsson voru kosin sem stjórnarmenn sambandsins til tveggja ára.

Snýr Þorbergur því aftur í stjórn HSÍ eftir níu ára fjarveru en hann fékk einu atkvæði meira en Ágúst Jóhannsson.

Einnig voru kosnir sem varamenn þeir Gunnar Gíslason, Hannes Karlsson og Magnús Karl Daníelsson til eins árs.

Þá lét Vigfús Þorsteinsson af störfum í stjórn HSÍ og var honum þakkað fyrir störfin undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×