Fótbolti

Glódís og félagar náðu stigi á útivelli

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir í leik með Eskilstuna á síðasta tímabili.
Glódís Perla Viggósdóttir í leik með Eskilstuna á síðasta tímabili. mynd/eskilstuna united
Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í 1-1 jafntefli Eskilstuna United gegn Vittsjö í annarri umferð sænsku deildarinnar í knattspyrnu í dag en Eskilstuna er eftir leikinn með fjögur stig í fjórða sæti.

Eftir nauman sigur í fyrstu umferð lenti Eskilstuna undir strax á sautjándu mínútu í dag þegar Ebba Hed kom Vittsjö yfir á heimavelli en Mimmi Larsson jafnaði metin fyrir gestina á 72. mínútu.

Þetta þýðir að Eskilstuna er strax komið tveimur stigum á eftir toppliðunum tveimur frá því í fyrra, Rosengard og Linkopings.

Þá er Kristianstads án stiga eftir tvær umferðir en líkt og í fyrstu umferðinni þurftu stelpurnar hennar Elísabetar Gunnarsdóttur að sætta sig við 0-1 tap. Sif Atladóttir lék allan leikinn í vörn Kristianstads en gat ekki komið í veg fyrir tapið.

Fyrr í dag lék Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir allan leikinn í 0-2 tapi Valerenga á heimavelli gegn Röa en Valerenga lék manni færri síðasta hálftíman og tapaði öðrum leiknum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×