Enski boltinn

Newcastle hársbreidd frá ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að leika ekki

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron Einar í leik með Cardiff í vetur
Aron Einar í leik með Cardiff í vetur vísir/getty
Newcastle þarf aðeins stig úr síðustu þremur leikjum liðsins í ensku Championship-deildinni til að gulltryggja sæti sitt í deild þeirra bestu á nýjan leik eftir eins ára fjarveru en þetta varð ljóst eftir leiki dagsins í Championship-deildinni.

Í raun þarf algjört kraftaverk til þess að Reading sem tapaði óvænt gegn Nottingham í dag geti náð Newcastle en lærisveinar Rafa Benitez eiga 36 mörk á Reading þegar Reading á aðeins tvo leiki eftir.

Nottingham sem berst fyrir lífi sínu í deildinni gerði sér lítið fyrir og vann Reading á heimavelli 3-2 en heimamenn komust 3-0 yfir í upphafi seinni hálfleiks. Reading náði að minnka muninn í tvígang en náði ekki að bæta við jöfnunarmarki.

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn á miðju Cardiff sem gerði markalaust jafntefli við Wigan en Cardiff er um miðja deild með 59 stig að 44 leikjum loknum þegar tveir leikir eru eftir.

Jafnteflið þýðir hinsvegar að örlög Wigan eru nánast ráðin en liðið þarf á kraftaverki að halda til að bjarga sæti sínu í deildinni.

Jón Daði Böðvarsson kom inn af bekknum en náði ekki að komast á blað í markalausu jafntefli gegn Blackburn á heimavelli en Úlfarnir sigla sama sjó og Cardiff um miðja deild.

Varnarmennirnir Ragnar Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon komu ekkert við sögu í sigurleikjum liða sinna í dag en Fulham vann 4-1 sigur á Huddersfield á útivelli og náði með því þriggja stiga forskoti á Leeds um baráttuna um síðasta umspilssætið.

Bristol City vann 3-2 sigur á heimavelli og er komið í 17. sæti deildarinnar eftir að hafa fengið 10 stig af síðustu tólf mögulegum en Hörður hefur lítið komið við sögu undanfarnar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×