Erlent

Einstök kápa úr Titanic seldist fyrir 21 milljón

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kápan er í einstaklega góðu ástandi.
Kápan er í einstaklega góðu ástandi. PA

Loðkápa sem áður var í eigu þernu á Titanic var seld á uppboði í dag fyrir 150 þúsund pund, næstum 21 milljón króna.



Þernan, Mabel Bennett, snaraði sér í kápuna þegar skemmtiferðaskipið ósökkvanlega rakst á ísjakann í jómfrúarferðinni árið 1912. Afleiðingarnar þekkja flestir, rúmlega 1500 skipverjar ýmist drukknuðu eða dóu úr kulda.



Hvort það hafi verið kápan eða útsjónarsemin sem hélt lífinu í hinni 33 ára gömlu Bennett skal ósagt látið en hún komst í það minnsta um borð í björgunarbát númer 5 og lifði til 96 ára aldurs.



Hún gaf frænku sinni kápuna árið 1960 sem þó klæddist henni aldrei þar sem henni þótti kápan of þung. Því hefur hún lítið sem ekkert verið notuð í þau 56 ár sem liðu þangað til hún rataði á uppboðið í dag í Wiltskíri í suðvestur Englandi.



Haft er uppboðshaldaranum í Telegraph að kápan sé einstök með öllu. „Ekki einungis var kápan í eigu starfsmanns Titanic heldur er þetta, eftir því sem við best vitum, eina flíkin í jafn frábæru ástandi úr skipinu sem nokkurn tímann hefur verið boðin upp.“



Búist var við því að kápan myndi seljast á um 50 til 80 þúsund pund en áhugasamur kaupandi í salnum var tilbúinn að reiða fram næstum þrefalt hærri upphæð eins og fyrr segir.

Kápan í öllu sínu veldi.PA


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×