Enski boltinn

Telur Rashford geta náð jafnt langt og Ronaldo og Neymar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rashford fagnar einu af mörkum sínum.
Rashford fagnar einu af mörkum sínum. vísir/getty
Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, ber miklar væntingar til Marcus Rashford, framherja Manchester United en hann telur að hann geti komist á stall með Cristiano Ronaldo og Neymar.

Rashford sem skaust fram á sjónarsviðið á síðasta tímabili skoraði sigurmark Manchester United gegn Anderlecht í vikunni en það var tíunda mark Rashford á tímabilinu í 44 leikjum.

Nú þegar ljóst er að Zlatan verður ekki með það sem eftir lifir tímabilsins fær Rashford væntanlega tækifærið í fremstu víglínu hjá Manchester United en Scholes telur að Rashford gæti orðið einn af bestu leikmönnum heimsins.

„Hann verður frábær framherji, það er engin spurning. Hann hefur allan pakkann og er orðinn einn mikilvægasti leikmaður félagsins, það aðeins nítján ára gamall,“ sagði Scholes sem líkti honum við stórstjörnur.

„Þegar litið er til leikmanna á borð við Cristiano Ronaldo og Neymar, hann er með hæfileika á borð við þá. Það eru gríðarlegar væntingar en hann gæti orðið stjarna á heimsvísu. Hann þarf aðeins að vinna í að halda betur einbeitingu þegar hann kemst í færi en hann mun ná tökum á því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×