Erlent

Meintur vinskapur Pavarotti og Trump vekur furðu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Luciano og Donald. Mestu mátar?
Luciano og Donald. Mestu mátar? Vísir/Getty
Fjölmargar hafa gert sér mat úr meintum vinskap Bandaríkjaforseta og óperusöngvarans Luciano Pavarotti - sem lést árið 2007.

Á sameiginlegum blaðamannafundi í Hvíta húsinu hrósaði Donalds Trump gesti sínum Paolo Fentiloni, forsætisráðherra Ítalíu, í hástert. Sagði Trump Ítalíu lengi hafa verið forsprakka á sviðum vísinda og lista og nefndi máli sínu til stuðnings snillingana Verdi og fyrrnefndan Pavarotti sem Trump sagði vera vin sinn. „Mikill vinur minn,“ bætti Trump við eins og hans er von og vísa.

Þessi ummæli hafa vakið furðu og kátínu meðal fjölmargra, netverja jafnt sem þáttastjórnenda, enda botna þeir ekkert í hvernig þeim Trump og Pavarotti hefur tekist að rækta vinskap sinn í þann áratug sem óperusöngvarinn hefur verið dáinn.

Ummælin má sjá hér að neðan.

Það er ekki útilokað að Bandaríkjaforseti hafi í raun átt við að þeir hafi verið miklir vinir meðan Pavarotti lifði. Það er heldur ekki útilokað að þeir hafi aldrei nokkurn tímann verið vinir enda hefur reynst erfitt að finna sannanir þess efnis að þeir hafi yfirhöfuð hist.

Trump fékk þó óperusöngvarann til að koma fram í einu spilavíta auðjöfursins í Atlantic City árið 2002. Þeim samskiptum lauk með því að Trump krafðist endurgreiðslu frá Pavarotti vegna þess sem hann taldi vera „lélega frammistöðu“ söngvarans.

Þá skarst einnig í odda milli Trump og fjölskyldu Pavarottis í kosningabaráttu þess fyrrnefnda í fyrra en ekkja söngvarans taldi boðskap forsetaframbjóðandans ekki samræmast gildum þess ítalska.

Gerði hún því þá kröfu, fyrir hönd fjölskyldu Pavarotti, að Donald Trump myndi hætta að nota lög óperusöngvarans á kosningafundum sínum.

Hér má sjá grínistann og þáttastjórnandann Jimmy Kimmel gantast með hinn meinta vinskap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×