Innlent

Tæta Keflavíkurflugvöll í sig

Anton Egilsson skrifar
Það er iðulega mikil mannmergð á Keflavíkurflugvelli hverju sinni.
Það er iðulega mikil mannmergð á Keflavíkurflugvelli hverju sinni. Vísir
Keflavíkurflugvöllur er illa skipulagður og þar eru alltof fá sæti miðað við þann fjölda fólks sem þar fer í gegn. Þetta segir ferðabloggari sem deilir upplifun sinni af flugvellinum á vef Seattle Times en hann var allt annað en sáttur með veru sína.  

Brian Cantwell millilenti í Keflavík fyrr í þessum mánuði en hann var þar staddur á heimleið til Seattle ásamt fjölskyldu sinni. Hann greinir frá því að tvær grímur hefðu runnið á hann og aðra fjölskyldumeðlimi þegar mannmergðin í Keflavík blasti við þeim. Á um það bil sama tíma og flug þeirra átti að fara voru einnig áætluð fimmtán önnur Ameríkuflug.

Hann segir mikla ringulreið hafa ríkt á staðnum og hneykslast jafnframt yfir því hve lélegt skipulag hafi verið á málum. Fyrir allan þann fjölda fólks sem statt var á vellinum hafi einungis tíu sæti verið í boði við brottfararhliðið og því nær ómögulegt að fá sæti.

„Við komum að hliðinu okkar og þar voru engir stólar, ekki neinn. Allir sátu bara á gólfinu,“ skrifar Cantwell.

Cantwell ber þá reykingarsvæði flugvallarins ekki góða söguna. Hann segir að í hvert skipti sem hurð þess hafi opnast hafi flugvöllurinn hreinlega fyllst af reyk. Lýsir hann upplifun sinni svo að þetta hafi verið eins og að vera staddur í ódýru spilavíti í tvær klukkstundir.

Algjört skipulagsklúður

Í færslu sinni vísar Cantwell einnig í umsagnir annarra ferðabloggara sem skrifað hafa um veru sína Keflavíkurflugvelli. Voru þeir flestir á sama máli og Cantwell og sögðust lítt hrifnir af flugvellinum. Einn segir algjört skipulagsleysi hafa verið á vellinum en það að raðir til að bóka sig inn hafi verið langar.

„Öll Ameríkuflug voru um það bil að fara á sama tíma, þetta var algjört skipulagsklúður. Þetta endaði með því að flugvélin fór 30 mínútum of seint.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×