Handbolti

Sveinn Aron: Förum ekki út til að tapa með sjö, við ætlum að vinna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sveinn skoraði sex mörk fyrir Val í kvöld.
Sveinn skoraði sex mörk fyrir Val í kvöld.
„Ég er ekki frá því að þetta sé okkar besti leikur í vetur. Við byrjuðum leikinn sterkt og spiluðum frábæran varnarleik allan tíman,“ segir Sveinn Aron Sveinsson, leikmaður Vals, eftir sigurinn á AHC Potaissa Turda frá Rúmeníu, 30-22, í fyrri leik  í undanúrslitum Áskorendabikars Evrópu.

„Þeir voru oft seinir til baka og við nýttum okkur það vel með hraðaupphlaupum. Þetta var bara geggjaður leikur.“

Sveinn segir að það hafi verið erfitt að undirbúa sig fyrir þennan leik þar sem Valur hafi fengið mjög lélegt myndefni af rúmenska liðinu.

„Þetta var þannig lagað ekkert svaðalega mikill undirbúningur fyrir þetta lið. Við vitum bara að þegar við spilum þessa vörn, þá vinnum við þessi lið. Það skiptir ekki máli hvaða lið það er, og hvað þá svona hæg lið frá Austur-Evrópu, við bara eigum þá.“

Hann segir að menn hafi aldrei fundið fyrir neinu stressi fyrir þessum leik.

„Maður er kominn svo langt inn í þetta augnablik að maður er farinn að finnst þetta bara eðlilegt. Maður kannski fattar þetta bara ekki alveg eins vel og kannski fólkið sem er að horfa á leikinn.“

Sveinn segir að Valsmönnum þykir mjög gaman að spila pressuleiki og úrslitaleiki.

„Núna erum við bara í úrslitaleikjum um þessar mundir og það hentar okkur bara vel.“

Hornamaðurinn segir að liðið ætli alls ekki að fara út til Rúmeníu til að verja eitthvað forskot.

„Það er svolítið þannig í þessu Evrópukeppnum að heimavöllurinn skiptir miklu máli. Við förum í næsta leik bara alveg eins og í þennan. Við erum ekki að fara verja neitt og förum út til að vinna annan leik. Við ætlum ekki að fara út til að tapa með sjö, það er ekki að fara gerast.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×