Enski boltinn

Milljarðamark Martial gegn Burnley

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Leikmenn Manchester United fagna marki Martial í dag.
Leikmenn Manchester United fagna marki Martial í dag. Vísir/getty
Anthony Martial kom Manchester United yfir á Turf Moor gegn Burnley rétt í þessu en markið kostaði Manchester United 8,5 milljónir punda eða tæplega 1,4 milljarð íslenskra króna vegna samkomulags um árangurstengdar greiðslur við franska félagið Monaco.

Martial sem hefur verið mikið út í kuldanum hjá Jose Mourinho á þessu tímabili skoraði í dag 25. mark sitt fyrir Manchester United en hluti kaupsamningsins á milli Manchester United og Monaco var árangurstengdur.

Greiddi Manchester United á sínum tíma 36 milljónir punda fyrir Martial en sú upphæð er nú komin í 46 milljónir og gæti enn hækkað.

Fari svo að Martial leiki 25 landsleiki fyrir Frakklands hön eða vinni Ballon d'Or fyrir árslok 2019 neyðast forráðamenn Manchester United að rífa upp veskið á nýjan leik.

Martial tókst með markinu einnig að skora loksins framhjá Tom Heaton en skot Martials var 43. tilraun Manchester United að markinu gegn Burnley á þessu tímabili eftir markalaust jafntefli á Old Trafford fyrr á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×