Fótbolti

Jón Guðni hóf endurkomuna gegn Hacken | Jafnt í Íslendingaslagnum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jón Guðni í leik með íslenska landsliðinu.
Jón Guðni í leik með íslenska landsliðinu. vísir/getty
Jón Guðni Fjóluson skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu og jafnaði metin fyrir Norrköping í 2-1 sigri á Hacken á útivelli í dag en þetta var annað mark hans í tuttugasta leiknum fyrir félagið.

Alhassan Kamara kom Hacken yfir á 22. mínútu en Jón Guðni jafnaði metin í upphafi seinni hálfleiks eftir sendingu frá Linus Wahlqvist. Wahlqvist var aftur á ferðinni skömmu síðar er hann lagði upp sigurmark leiksins fyrir Sebastian Andersson.

Það dugði Norrköping til sigurs og er félagið því komið á sigurbraut á ný eftir tvo tapleiki í röð þar á undan. Norrköping er með sex stig að fjórum umferðum loknum en Hacken situr þremur sætum neðar með fimm stig.

Í seinni leik dagsins var sannkallaður Íslendingaslagur þegar Hammarby og Sundsvall skyldu jöfn á heimavelli Hammarby en leiknum lauk með 0-0 jafntefli. Það voru fimm íslenskir leikmenn sem byrjuðu leikinn og léku þeir allir 90. mínútur í dag.

Ögmundur Kristinsson, Birkir Már Sævarsson og fyrirliðinn Arnór Smárason voru allir í liði Hammarby sem hélt hreinu í fyrsta sinn á tímabilinu en nafnarnir Kristinn Steindórsson og Kristinn Freyr Sigurðsson í liði Sundsvall fundu engar leiðir framhjá íslensku landsliðsmönnunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×