Fótbolti

Lazio skoraði fimm á hálftíma | Emil og félagar aftur á sigurbraut

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Keita og félagar fengu að fagna að vild í dag.
Keita og félagar fengu að fagna að vild í dag. Vísir/getty
Leikmenn Lazio buðu upp á sannkallaða flugeldasýningu á upphafsmínútum leiksins í 6-2 sigri á Palermo í ítölsku deildini í dag en á 26. mínútu leiksins voru heimamenn komnir 5-0 yfir og búnir að gera út um leikinn.

Ítalski framherjinn Ciro Immobile byrjaði leikinn af krafti og kom Lazio 2-0 yfir með mörkum á 8. og 10. mínútu leiksins en þá var komið að liðsfélaga hans í sókninni, Balde Keita.

Keita skoraði þrjú mörk á fimm mínútna kafla, eitt af vítapunktinum og var staðan skyndilega fimm núll. Ótrúlegar tölur á Ólympíuvellinum í Rómarborg. Varnarmaðurinn Andrea Rispoli náði aðeins að klóra í bakkann fyrir gestina með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla en Luca Crecco innsiglaði sigurinn með sjötta marki Lazio í uppbótartíma.

Lazio er því með sex stiga forskot á AC Milan í baráttunni um sæti í Evrópudeildinni á næsta ári eftir að AC Milan missteig sig á heimavelli og tapaði óvænt gegn Empoli sem berst í kjallara deildarinnar 1-2 á San Siro í dag. Empoli komst 2-0 yfir í upphafi seinni hálfleiks og náði gamla ítalska stórveldið ekki að brúa það en heimamenn brenndu af vítaspyrnu í leiknum.

Þá lék Emil Hallfreðsson allar 90. mínúturnar í 2-1 sigri Udinese á Cagliari en Udinese siglir lygnan sjó um miðja deild þegar skammt er eftir af tímabilinu. Udinese brenndi af vítaspyrnu í fyrri hálfleik en tvö mörk á þriggja mínútna kafla tryggðu sigurinn og kom mark Cagliari frá Marco Boriello á 86. mínútu því ekki að sök.

Úrslit dagsins:

AC Milan 1-2 Empoli

Chievo 1-3 Torino

Lazio 6-2 Palermo

Sampdoria 1-2 Crotone

Udinese 2-1 Cagliari




Fleiri fréttir

Sjá meira


×