Innlent

Maður lenti í snjóflóði á Esjunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Sexhjól og fjallabjörgunarbíll SHS voru send á staðinn.
Sexhjól og fjallabjörgunarbíll SHS voru send á staðinn. Vísir/Jói
Vel búinn göngumaður lenti í snjóflóði á Esjunni um klukkan eitt í dag. Hann var fluttur af starfsmönnum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til aðhlynningar á Slysadeild í Fossvogi og er nokkuð slasaður. Meðal annars er maðurinn fótbrotinn eftir að hafa borist eitthvað með snjóflóðinu.

Þó tókst honum að koma sjálfum sér að nærliggjandi gönguleið þar sem aðrir göngumenn komu að honum. Ekki liggur fyrir hvar snjóflóðið var, hvernig það fór af stað, né hve langa leið hann barst með því, þar sem hann var einn á ferð. Hann fannst á gönguleið nærri Rauðhól.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu voru starfsmenn þess um 40 mínútur að komast til mannsins og þurfti ekki hjálp björgunarsveita.

Nokkuð kalt er á svæðinu og þykir það mögulega hafa komið manninum til bjargar að hafa komist að gönguleiðinni þar sem göngufólkið kom að honum fyrir tilviljun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×