Erlent

Tony Blair segir afstöðu til Brexit mikilvægari en flokkadrætti

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tony Blair, var forsætisráðherra Bretlands, á árunum 1997-2007.
Tony Blair, var forsætisráðherra Bretlands, á árunum 1997-2007. Vísir/EPA
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hvetur breska kjósendur til þess að kjósa ekki þingmenn sem „munu styðja Brexit sama hvað það kostar,“ óháð því hvaða flokki þeir tilheyra. Kosningar fara fram í landinu í júní.

Blair, sem var leiðtogi Verkamannaflokksins frá árinu 1994-2007, segir í samtali við BBC, að Brexit sé mikilvægara en flokkar. Íhaldsflokkurinn muni að öllum líkindum sigra í kosningunum, en Verkamannaflokkurinn þurfi að vera öflugur til þess að geta veitt Theresu May, aðhald.

Blair segir að stefna May í Brexit-málinu sé „algjörlega óraunhæf“ og að það sé augljóst að hægri vængur Íhaldsflokksins hafi hve mest um stefnu flokksins að segja í Brexit.

Þá segir Blair að stefna Verkamannaflokksins í Brexit-málinu sé óljós og að „hann sé ekki alveg viss hver stefna flokksins sé.“ Það þurfi að skerpa á stefnunni.

„Punkturinn snýst þó ekki um það hvort að ég sé í Verkamannaflokknum, eða ekki í Verkamannaflokknum, eða hvort um sé að ræða íhaldsmenn, eða frjálslynda demókrata. Ég mun vinna með hverjum sem er til þess að koma þessum rökum til kjósenda.“

Hann segir að Brexit hafi haft djúpstæð áhrif á sig og að hann hafi verið nálægt því að taka þátt í stjórnmálum á nýjan leik vegna málsins. Blair steig af stóli forsætisráðherra árið 2007, eftir 10 ár í embættinu og hætti þá þátttöku í stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×