Enski boltinn

Benteke hetja Palace á gamla heimavellinum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Tveir fyrrum Liverpool-menn, Benteke og Sakho, fagna marki þess fyrrnefnda.
Tveir fyrrum Liverpool-menn, Benteke og Sakho, fagna marki þess fyrrnefnda. Vísir/getty
Christian Benteke var hetja Crystal Palace í 2-1 sigri á Liverpool í dag en Benteke sem var seldur frá Liverpool til Palace fyrr á tímabilinu skoraði bæði mörk leiksins fyrir framan gömlu stuðningsmennina.

Liverpool gat með sigri sett pressu á liðin fyrir neðan sig í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta ári og byrjuðu heimamenn vel því eftir tuttugu mínútur skoraði Philippe Coutinho fyrsta mark leiksins.

Skrúfaði hann boltann yfir varnarvegginn og í fjærhornið úr aukaspyrnu af 25 metra færi, óverjandi fyrir Wayne Hennesey í marki Crystal Palace og virtist Liverpool vera með góða stjórn á leiknum á þessum tímapunkti.

En líkt og oft áður áttu varnarmenn Liverpool í bölvuðum vandræðum með stóra og sterka framherja og Benteke refsaði gömlu félögum sínum með jöfnunarmarki rétt fyrir lok fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Yohan Cabaye.

Benteke var aftur á ferðinni korteri fyrir leikslok þegar hann skallaði hornspyrnu Jason Puncheon í netið af stuttu færi, óverjandi fyrir landa hans Simon Mignolet í marki Liverpool og var Crystal Palace skyndilega komið yfir.

Þrátt fyrir að hafa korter til að laga stöðuna var Liverpool aldrei nálægt því að jafna metin en strákarnir hans Stóra Sam sigldu sigrinum örugglega heim á lokameturunum.

Var þetta fyrsti sigur Sam Allardyce sem knattspyrnustjóri á Anfield en þetta var fjórtándi leikur hans sem knattspyrnustjóri á heimavelli Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×