Innlent

Rússar segjast búa yfir vopnum sem geta lamað bandarísk herskip

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rússneskar orrustuþotur við hátíðahöld í Moskvu árið 2015.
Rússneskar orrustuþotur við hátíðahöld í Moskvu árið 2015.
Rússneskar orrustuþotur geta sent frá sér rafbylgjur sem lama varnir skipa bandaríska sjóhersins ef marka má yfirlýsingar rússneska ríkisfjölmiðilsins.

Í þættinum Vesti var því haldið fram rússneskur orrustuflugmaður hafi notað rafvopn, sem kallað er Khibiny, gegn bandaríska herskipinu USS Donald Cook sem sigldi um Svartahaf árið 2014. Vopnið, sem gefur frá sér öflugar rafbylgjur, hafi gert varnir skipsins - sem hannaðar eru til að verjast hvers kyns skot- og sprengjuárásum - óvirkar með öllu.

„Þú þarft ekki að búa yfir dýrum vopnum til að sigra stríð. Öflugar, lamandi rafbylgur eru nóg,“ sagði viðmælandi Vesti-þáttarins.

Bandaríski herinn staðfesti á sínum tíma að Donald Cook hafi komist í návígi við tvær rússneskar orrustuþotur í leiðangri sínum um Svarthaf. Talsmaður hersins sagði við sama tilefni að skipið væri fullfært um að verjast tveimur Su-24 þotum og fátt í máli hans benti til að varnir skipsins hefðu verið teknar úr umferð.

Ekki er vitað hvers vegna þessi afhjúpun lítur fyrst dagsins ljós 3 árum eftir hina meintu notkun vopnsins, nú þegar samskipti Rússa og Bandaríkjamanna eru við frostmark. Bæði Bandaríkjaforseti og utanríkisráðherrann Rex Tillerson hafa gengist við því að stirt sé á milli ríkjanna og að slíkt sé óásættanlegt þegar um er að ræða tvö mestu kjarnorkuveldi heims.

Fjölmiðlar ytra hafa óskað eftir viðbrögðum frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu en án árangurs.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×