Handbolti

Sigtryggur frábær í ellefu marka sigri Aue

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sigtryggur hefur verið afar öflugur að undanförnu.
Sigtryggur hefur verið afar öflugur að undanförnu. mynd/aue
Sigtryggur Rúnarsson var potturinn og pannan í sóknarleik Aue í 36-25 sigri á Saarlouis í þýsku 2. deildinni í handbolta í dag en hann skoraði tíu af mörkum Aue í leiknum.

Aue náði sex marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 17-11 og var í raun aðeins formsatriði að klára seinni hálfleikinn þar sem sigurinn var aldrei í hættu. Sigtryggur fór fyrir sínum mönnum með tíu mörk úr tíu skotum en Árni Þór Sigtryggsson var með þrjú mörk úr fimm skotum. Bjarki Már Gunnarsson komst ekki á blað í leiknum.

Í efstu deild gat Rúnar Kárason ekki komið í veg fyrir tap Hannover-Burgdorf gegn Gummersbach á útivelli en leiknum lauk með 30-26 sigri Gummersbach sem leiddi með sama mun í hálfleik.

Rúnar komst á blað með eitt mark í leiknum ásamt því að fá eina brottvísun en þetta var ellefta tap liðsins í röð eftir góða byrjun í deildinni en fyrir vikið hefur liðið sogast niður töfluna undanfarnar vikur.

Í annarri deildinni unnu Oddur Gretarsson og félagar í Emsedetten á heimavelli 29-26 í Íslendingaslag gegn Fannari Friðgeirssyni og félögum í ASV Hamm-Westfalen en Oddur var meðal markahæstu manna í liði Emsdetten með fimm mörk úr fimm skotum. Fannar komst á blað með tvö mörk úr fimm skotum.

Í Hüttenberg átti Ragnar Jóhannsson flottan leik í 34-28 sigri heimamanna gegn Neuhausen en með sigrinum fer Huttenberg upp í 3. sæti deildarinnar með 43. stig ásamt því að eiga leik til góða á Rimpar í baráttunni um 3. og síðasta sætið sem kemur liðum upp í efstu deild.

Í Bietigheim varði Aron Rafn Eðvarsson fjóra bolta af 19 í 25-24 sigri Bietigheim-Metterzimmern gegn Leutershausen en Bietigheim-Metterzimmern er í harðri baráttu um að komast upp í efstu deild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×