Enski boltinn

Wenger: Sanchez er eins og dýr inn á vellinum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Wenger gefur skipanir til leikmanna sinna í dag.
Wenger gefur skipanir til leikmanna sinna í dag. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var að vonum í skýjunum eftir 2-1 sigur gegn Manchester City í undanúrslitum enska bikarsins á Wembley í dag en þetta er í þriðja skiptið á síðustu fjórum árum sem Arsenal kemst í úrslit bikarsins.

„Ég er virkilega sáttur, þetta var stór leikur og ég var ánægður með frammistöðu leikmanna minna, bæði andlega og líkamlega. Við urðum sterkari eftir því sem leið á leikinn og þessi sigur var verðskuldaður. Ég verð að hrósa mínum mönnum fyrir að gefa allt í þetta og að vinna leikinn,“ sagði Wenger og bætti við:

„Við vorum full varkárir í fyrri hálfleik, við leyfðum Manchester City að stjórna leiknum en við komumst alltaf betur og betur inn í leikinn. Þetta var jafn og spennandi leikur en að mínu mati áttum við sigurinn skilinn.“

Arsenal lenti undir snemma í seinni hálfleik en jafnaði metin skömmu síðar.

„Við vorum nálægt því að skora í upphafi seinni hálfleiks en í staðin fyrir það keyra þeir upp og skora markið sitt. Það var kæruleysislegt en strákarnir sýndu rétt viðbrögð við því að lenda undir. Við höfum heyrt gagnrýni á það hvernig við mætum til leiks í stórleikjum en við stóðum saman í gegnum erfiða tíma og sýndum framfarirnar í dag.“

Wenger hrósaði Alexis Sanchez sem hefur verið orðaður frá félaginu en hann skoraði sigurmark leiksins.

„Hann átti í smá vandræðum framan af en óx ásmegin rétt eins og liðinu. Hann er eins og dýr inn á vellinum sem gefst aldrei upp og alltaf tilbúinn að reyna að drepa bráðina. Hann er ekki á förum frá félaginu því hann er með samning út næsta ár og markmiðið er að framlengja hann.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×