Körfubolti

Aaryn: Vissi að ég þyrfti að stíga upp undir lok leiksins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aaryn Ellenberg átti flottan leik í kvöld.
Aaryn Ellenberg átti flottan leik í kvöld. vísir/daníel þór
„Við komum inn í þennan leik af miklu meiri ákafa heldur en í síðustu tveimur leikjum, það komu allir tilbúnir til að berjast fyrir sigrinum í kvöld,“ sagði Aaryn Ellenberg, leikstjórnandi Snæfells, sátt í viðtali við Ágúst Björgvinsson á Stöð 2 Sport eftir 68-60 sigur Snæfells gegn Keflavík í kvöld.

Snæfellskonur vissu að allt annað en sigur í kvöld þýddi að Keflavík myndi hampa Íslandsmeistaratitlinum á heimavelli þeirra.

„Við vissum að við gætum ekki farið inn í þennan leik og unnið hann með einstaklings framtaki, það þurftu allir að koma með eitthvað á borðið í þessum leik.“

Sjá einnig:Leik lokið: Snæfell - Keflavík 68-60 | Titilinn fór ekki á loft í Hólminum

Aaryn bar sóknarleik Snæfells á herðum sér á lokamínútunum og setti margar mikilvægar körfur en hún endaði með 33 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar í leiknum.

„Ég vissi að þetta yrði leikur sem myndi vinnast með litlum mun og  ég vissi að ég þyrfti að vera tilbúin að stíga upp undir lok leiksins. Ég var með það hugarfar allan tímann að ég þyrfti að stíga upp á lokamínútunum,“ sagði Aaryn og hélt áfram:

„Ég þarf að vita hvernig ég stýri leiknum sem best, byrja af krafti en á sama tíma koma liðsfélögum mínum vel inn í leikinn. Ég má ekki eyða of miklu bensíni í byrjun og vera búin á því í lokin, ég þarf að vita hvenær ég á að ráðast á körfuna og hvenær ég á að setjast í aftara sætið og leyfa liðsfélögunum að stýra,“ sagði Aaryn að lokum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×