Enski boltinn

Alli valinn besti ungi leikmaður deildarinnar annað árið í röð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Alli fagnar marki sínu gegn Chelsea í gær með Trippier
Alli fagnar marki sínu gegn Chelsea í gær með Trippier
Ungstirnið Dele Alli sem leikur með Tottenham Hotspur og enska landsliðinu, var í kvöld valinn besti ungi leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar annað árið í röð.

Er þetta er þriðja árið í röð sem Tottenham á leikmanninn sem valinn er besti ungi leikmaður deildarinnar en tvö ár eru síðan Harry Kane vann verðlaunin.

Alli var ásamt liðsfélaga sínum Harry Kane tilnefndur til verðlaunanna en aðrir sem komu til greina voru þeir Leroy Sane, Jordan Pickford, Romelu Lukaku og Michael Keane.

Er um að ræða árleg verðlaun þar sem leikmenn deildarinnar útnefna besta leikmann deildarinnar, besta unga leikmanninn og lið ársins.

Hefur hann farið á kostum í liði Tottenham en hann er með sextán mörk í 31 leikjum í ensku úrvalsdeildinni ásamt því að skora þrjú mörk í fimm leikjum í enska bikarnum. Hefur þessi 21 árs gamli miðjumaður því skorað tuttugu mörk hjá Tottenham á þessu tímabili.

Er þetta einnig þriðja árið í röð sem hann hreppir verðlaunin sem besti ungi leikmaður deildarinnar en hann var valinn besti ungi leikmaður neðri deildanna árið áður en hann fór til Tottenham.

Kemst hann í flokk með Wayne Rooney, Robbie Fowler og Ryan Giggs yfir þá leikmenn sem hafa verið valdir besti ungi leikmaður deildarinnar tvö ár í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×