Erlent

Le Pen og félagar stilla miðið á Macron

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kosningabaráttan fyrir seinni umferð frönsku forsetakosninganna er strax hafinn og verður hún hörð af ummælum ráðgjafa Marine Le Pen að dæma.
Kosningabaráttan fyrir seinni umferð frönsku forsetakosninganna er strax hafinn og verður hún hörð af ummælum ráðgjafa Marine Le Pen að dæma. Vísir/Getty
Miðjumaðurinn Emmanuel Macron er hrokafullur og enginn föðurlandssvinur ef marka má orð eins helsta ráðgjafa Marine Le Pen. Kosningabaráttan fyrir seinni umferð frönsku forsetakosninganna er strax hafin og verður hún hörð af ummælum ráðgjafa Le Pen að dæma. Reuters greinir frá.

Macron bar sigur úr býtum í fyrri umferð kosninganna sem haldnar voru í gær. Hlaut hann 23,8 prósent atkvæða. Þjóðernissinninn Le Pen hlaut 21,5 prósent atkvæða en þar sem enginn frambjóðandi hlaut 50 prósent atkvæða eða meira verður kosið á milli þeirra eftir tvær vikur.

Spár gera ráð fyrir að Macron muni einnig sigra í seinni umferðinni en frambjóðendurnir munu nú reyna að vinna stuðning þeirra sem kusu aðra frambjóðendur en þau tvö.

Macron hélt sigurræðu sína í gær og virðist hún hafa farið öfugt ofan í Florian Philippot, varaformann Frönsku þjóðfylkingarinnar, flokks Le Pen. Gagnrýndi hann Macron fyrir bakgrunn sinn sem starfsmaður fjárfestingabanka og sem efnahagsmálaráðherra Francois Hollande, núverandi forseta Frakklands.

„Emmanuel er ekki föðurlandsvinur. Hann seldi ríkisfyrirtæki. Hann gagnrýndi franska menningu,“ sagði Philippot og gagnrýndi hann Macron fyrir að hafa látið eins og hann væri þegar orðinn forseti í sigurræðu sinni. „Þetta var ósmekklegt gagnvart frönsku þjóðinni.“

Francois Fillon, frambjóðandi hægri manna sem var þriðji í fyrri umferðinni, hefur þegar lýst yfir stuðningi við Macron og segir hann að fari Le Pen með sigur muni það einungis færa frönsku þjóðinni „óhamingju og óeiningu.“

Þá hefur Benoit Hamon, frambjóðandi sósíalista, einnig lýst yfir stuðningi við Macron auk þess sem að forsætisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, hefur gert slíkt hið sama.

Síðari umferð forsetakosninganna verður haldin 7. maí.


Tengdar fréttir

Velgengni Macron styrkti evruna

Evran hefur hækkað um 1,5% gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum í kvöld eftir að útgönguspár í Frakklandi birtust nú um klukkan 18 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×