Körfubolti

Jóhann: Óttaðist ekki að við myndum brotna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jóhann og félagar geta jafnað metin í einvíginu á fimmtudaginn.
Jóhann og félagar geta jafnað metin í einvíginu á fimmtudaginn. vísir/anton
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var yfirvegaður eftir sigurinn á KR í kvöld og var ekki að sjá á honum að hann hefði verið að vinna magnaðan sigur á KR.

„Ég er nú frekar rólegur að eðlisfari og með báða fætur á jörðinni,“ segir Jóhann Þór en leyfði sér nú að glotta að þessari spurningu.

„Ég er mjög hreykinn af mínu liði. Ég er ánægður með allt hjá þeim. Þetta var bara einn sigur og það er bara eitt skref í einu í þessu.“

Það hafði nánast enginn trú á Grindavík fyrir þennan leik en hvernig fór Jóhann að því að berja trú í sína menn?

„Á föstudaginn vorum við hörkugóðir en hentum leiknum frá okkur. Við vorum meðvitaðir um það og á því að ef við spilum eins vel og við erum sáttir við þá getum við keppt við þetta KR-lið. Við trúðum því. Vorum með plan og trúðum á það líka. Það skóp þennan sigur,“ segir þjálfarinn en hann var eðlilega ánægður með taugar sinna manna skildu halda í lokafjórðungnum.

„Við vorum flottir í vörninni á lokamínútunum er við þurftum að fá stopp. Það er ég ofboðslega ánægður með. Ég óttaðist ekki að við værum að brotna enda hef ég fulla trú á þessum drengjum. Við erum góðir í því sem við erum að gera og gegn frábæru liði. Þetta var stærsta sviðið hér fyrir framan stútfulla höll í kvöld og við vildum njóta í botn.

„Við hugsum bara um einn leik í einu og ég sé þig vonandi hérna aftur á sunnudaginn,“ sagði Jóhann Þór sposkur og glotti við tönn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×