Körfubolti

Golden State með sópinn á lofti og gríska fríkið setti persónulegt met | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steph Curry var upp á sitt allra besta í nótt.
Steph Curry var upp á sitt allra besta í nótt. vísir/getty
Golden State Warriors er komið í undanúrslit vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta eftir að sópa Portland Trail Blazers auðveldlega í sumarfrí.

Warriors, sem voru án þjálfara síns Steve Kerr í leiknum í nótt, unnu sannfærandi sigur á útivelli, 128-103, en þeir nánast löbbuðu í gegnum Portland alla seríuna.

Steph Curry var magnaður í fjórða leik liðanna í nótt en hann skoraði 37 stig, tók sjö fráköst og gaf átta stoðsendingar. Hann hitti úr sjö af ellefu þriggja stiga skotum sínum og sex af sjö vítaskotum.

Draymond Green kom næstur með 21 stig en Kevin Durant skoraði tíu stig á þeim 20 mínútum sem hann spilaði. Durant er að koma til baka eftir að meiðast í leik eitt. Damian Lillard skoraði 34 stig fyrir Portland sem hefur lokið keppni á tímabilinu.

Toronto Raptors komst í 3-2 í einvígi sínu á móti Milwaukee Bucks en fimmti leikur liðanna fór fram í Kanada í nótt. Lokatölur þar 118-103. Norman Powell skoraði 25 stig fyrir heimamenn en allt byrjunarlið Toronto skoraði yfir tíu stig.

Giannis Antetokounmpo, eða gríska fríkið eins og hann er kallaður, átti stórleik fyrir Bucks. Hann skoraði 30 stig, tók níu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar en þessi magnaði leikmaður er frá Grikklandi og verður mótherja strákanna okkar á EM í sumar.

Þá komst Atlanta Hawks í 3-2 í einvíginu á móti Washington Wizards í austrinu með 111-101 sigri á heimavelli í nótt. Sjö leikmenn Atlanta skoruðu yfir tíu stig en stigahæstur var Þjóðverjinn Dennis Schröder með 18 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×