Enski boltinn

Zlatan sagður átta sig á stöðunni hjá United og ætlar í MLS

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan verður ekki meira með á tímabilinu.
Zlatan verður ekki meira með á tímabilinu. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic er sagður hafa sætt sig við það að ferli hans hjá Manchester United er lokið vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í Evrópudeildinni á móti Anderlecht í síðustu viku og nú stefnir hann á MLS-deildina í Bandaríkjunum.

Það er enska götublaðið Daily Mirror sem greinir frá þessu en eftir að slá í gegn á sinni fyrstu leiktíð í enska boltanum sleit Svíinn magnaði krossband í síðustu viku og spilar hann ekkert meira á þessu ári.

Zlatan var aldrei búinn að skrifa undir nýjan samning við Manchester United og er nú sagður ætla að spila næst í MLS-deildinni í Bandaríkjunum en tímasetningin á upphafi hennar hentar sænska framherjanum mjög vel.

MLS-deildin hefst í mars á hverju ári þannig Zlatan ætti, ef endurhæfingin gengur vel, að vera klár í slaginn í fyrsta leik fari svo að hann semji við lið í þessari ungu og vaxandi deild.

Zlatan skoraði 28 mörk í 46 leikjum fyrir Manchester United á leiktíðinni, þar af 17 í ensku úrvalsdeildinni og þá varð hann deildabikarmeistari með liðinu. Fari svo að United komist í úrslitaleik Evrópudeildarinnar missir hann af einstöku tækifæri að spila úrslitaleikinn í sínu heimalandi, Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×