Enski boltinn

Dele Alli fær hrós frá einum þeim besta í sögunni: „Við erum að horfa á einstakan leikmann“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dele Alli er framtíð enska boltans.
Dele Alli er framtíð enska boltans. vísir/getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er að íhuga að rífa upp veskið og kaupa Dele Alli, miðjumann Tottenham, til City í sumar samkvæmt Xavi Hernández, fyrrverandi leikmanni Barcelona og spænska landsliðsins.

Xavi, sem er einn besti miðjumaður sögunnar, vann fjórtán stóra titla undir stjórn Guardiola hjá Barcelona og talar reglulega við sinn gamla þjálfara. Hann veit hvað Pep vill sjá í sínum leikmönnum.

„Ég tala við Pep og veit að hann skilur mikilvægi þess að kaupa enska leikmenn,“ segir Xavi í viðtali við enska blaðið The Sun.

Xavi sparaði svo ekki lofið í garð Alli sem á dögunum var kjörinn besti ungi leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar annað árið í röð.

„Þessa stundina er besti enski leikmaðurinn Dele Alli. Hann er líka einn sá besti í Evrópu. Við erum að horfa á einstakan leikmann,“ segir Xavi.

„Tæknilega er hann leikmaður sem Pep vill hafa í sínum liði. Hann er leikmaður sem hentar leikstíl hans. Ég er viss um að Tottenham vilji ekki láta Alli fara en Manchester City er ríkt félag,“ segir Xavi Hernández.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×