Fótbolti

Guðni Bergsson með tæpar 1,3 milljónir króna í laun hjá KSÍ

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðni Bergsson var kjörinn formaður í Vestmannaeyjum fyrr á árinu.
Guðni Bergsson var kjörinn formaður í Vestmannaeyjum fyrr á árinu. mynd/ksí
Guðni Bergsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í fótbolta, er með tæpar 1,3 milljónir króna í mánaðarlaun í starfi sínu sem formaður KSÍ en hann tók við starfinu af Geir Þorsteinssyni í febrúar á þessu ári.

Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar KSÍ. Laun Guðna eru 1.283.000 krónur á mánuði og auk þess nýtur hann bifreiðahlunninda að hámarki 150.000 krónur.

Samkvæmt þessu er Guðni með hærri grunnlaun en forveri hans, Geir Þorsteinsson, sem sagðist vera með 1.140.000 krónur í mánaðarlaun þegar hann svaraði fyrirspurn formanns knattspyrnudeildar FH á ársþinginu í fyrra.

Geir var einnig útvegaður bíll og aksturskostnaður hans var greiddur af sambandinu. Hann var búinn að vera formaður í tíu ár þegar hann lét af störfum og hafði starfað hjá sambandinu í rúma tvo áratugi.

Laun Guðna voru ákvörðuð í samræmi við viðmiðunarflokka ríkisskattstjóra fyrir reiknað endurgjald sérfræðing, að því fram kemur í fundargerð stjórnar KSÍ.

„Stjórn sambandsins ræddi hvaða viðmiðun RSK kæmi til greina og kom sér saman um að laun formanns væru ákvörðun í samræmi við flokk A1," segir í fundargerðinni.

Laun formanns og framkvæmdastjóra hafa vanalega verið sett saman í ársreikning KSÍ sem hefur aldrei verið vinsælt en nú er strax upp á borðinu hvað formaðurinn hefur í laun sem er í samræmi við aukið gagnsæi sem Guðni lofaði í framboði sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×