Erlent

Baulað á Ivönku í Berlín

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ivanka tekur hér í hönd Angelu Merkel, leiðtoga hins frjáls heims, á fundinum í dag.
Ivanka tekur hér í hönd Angelu Merkel, leiðtoga hins frjáls heims, á fundinum í dag. Vísir/Getty
Fundarmenn bauluðu á Ivönku Trump, ráðgjafa Bandaríkjaforseta, í Berlín í dag fyrir að hrósa afstöðu föður síns til kvenna.

Þar stendur nú yfir fundarröð í tengslum við W20, ráðstefnu 20 ríkja með málefni kvenna í brennidepli, og ræddi Ivanka þar um hvernig auka mætti hlut kvenna í nýsköun. Með henni á sviðinu voru Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og utanríkisráðherra Kanada, Chrystia Freeland.

Þegar talið barst að stefnu föður Ivönku, Bandaríkjaforsetans Donald Trump, sagði hún að hann hefði verið „ötull baráttumaður fyrir barnafjölskyldur“ og gefið konum byr undir báða vængi í störfum sínum.

Yfirlýsingin vakti strax nokkur viðbrögð fundarmanna sem tóku að sussa og baula á Ivönku sem var beðin um að útskýra fullyrðingu sína betur. Var hún minnt á að fjölmiðlar hafa síðustu mánuði ítrekað gert sér mat úr hegðun og ummælum forsetans sem talin eru endurspegla niðrandi viðhorf hans til kvenna. Skemmst ber að minnast þess þegar Trump stærði sig af því að komast upp með að káfa á konum á leynilegri upptöku.

„Ég hef svo sannarlega orðið vör við gagnrýni fjölmiðla, hún hefur verið þrálát,“ sagði Ivanka og bætti við að persónuleg reynsla hennar væri þó allt önnur en sú sem birtist á síðum blaðanna. Hann hafi hvatt hana áfram og talið henni trú um að engar hindranir væru óyfirstíganlegar.

Vísaði hún þá einnig til þúsunda kvenna sem unnið hefðu með honum í gegnum tíðina, í einka- sem og opinbera geiranum, sem bæru honum vel söguna.

Myndband af uppákomunni má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×