Enski boltinn

Costa með tvö mörk er Chelsea náði sjö stiga forystu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Costa og Cahill voru báðir á skotskónum.
Costa og Cahill voru báðir á skotskónum. vísir/getty
Diego Costa skoraði tvívegis þegar Chelsea vann 4-2 sigur á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Með sigrinum náði Chelsea sjö stiga forskoti á toppi deildarinnar. Tottenham getur minnkað forskotið niður í fjögur stig með sigri á Crystal Palace annað kvöld.

Southampton er áfram í 9. sæti deildarinnar en liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð með markatölunni 7-2.

Leikurinn var aðeins fimm mínútna gamall þegar Eden Hazard skoraði með góðu skoti úr vítateignum eftir sendingu frá Costa.

Southampton vann sig inn í leikinn eftir þetta og Oriel Romeu jafnaði metin á 24. mínútu þegar hann skoraði gegn sínum gömlu félögum.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom Gary Cahill Chelsea aftur yfir með góðum skalla og staðan 2-1 í hálfleik.

Costa kom Chelsea í 3-1 þegar hann skoraði með skalla af stuttu færi á 53. mínútu. Spænski Brassinn var svo aftur á ferðinni mínútu fyrir leikslok þegar hann skoraði laglegt mark eftir samleik við Hazard og Pedro.

Ryan Bertrand lagaði stöðuna í uppbótartíma en sigri Chelsea var ekki ógnað. Lokatölur 4-2, Chelsea í vil.

Hér að neðan má lesa lýsingu frá gangi mála.

90+4. mín: MARK!!! Ryan Bertrand skorar gegn sínum gömlu félögum! Rís hæst í teignum og skallar boltann framhjá Courtois. Báðir markaskorarar Southampton eru fyrrum leikmenn Chelsea.

89. mín: MARK!!! Costa skorar sitt annað mark og það er í laglegri kantinum! Tekur þríhyrninga við Hazard og Pedro og skorar svo framhjá Forster. Spænski Brassinn kominn með 19 mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

81. mín: N'Golo Kanté í dauðafæri en Fraser Forster ver vel.

76. mín: Pedro kemur inn fyrir Fábregas. Spánverji inn fyrir Spánverja.

69. mín: James Ward-Prowse með stórhættulega hornspyrnu. Boltinn berst á fjær á Gabbiadini sem skýtur í hliðarnetið.

68. mín: Redmond kemur inn fyrir Boufal. Spurning hvort þessi skipting hleypi einhverju lífi í sóknarleik gestanna.

53. mín: MARK!!! Costa kemur Chelsea í 3-1 með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf Fábregas. Skelfilegur varnarleikur hjá Southampton eins og í fyrstu tveimur mörkunum.

Seinni hálfleikur hafinn: Mason flautar seinni hálfleikinn á! Engar breytingar á liðunum.

Fyrri hálfleik lokið: Chelsea fer með 2-1 forystu til búningsherbergja eftir fjörugan fyrri hálfleik.

45+1. mín: MARK!!! Cahill kemur Chelsea aftur yfir með skalla eftir að boltinn datt fyrir hann í miðjum teignum! Cahill skorar alltaf sín mörk.

42. mín: Boufal þrumar boltanum í hliðarnetið úr þröngu færi. Chelsea brunar í sókn, Hazard kemst í fína stöðu en hættir við að skjóta og Dýrlingarnir ná að bjarga.

33. mín: Dýrlingarnir eru með yfirhöndina þessar mínúturnar. Chelsea nær litlum takti í sitt spil.

24. mín: MARK!!! Romeu skorar gegn sínum gömlu félögum og jafnar metin! Manolo Gabbiadini fær boltann á fjærstöng eftir hornspyrnu og á skot sem Thibaut Courtois ver en boltinn dettur fyrir Romeu sem ýtir honum yfir línuna.

18. mín: Hazard í fínu færi en skýtur hátt yfir.

5. mín: MARK!!! Hazard kemur Chelsea yfir með góðu skoti úr teignum eftir sendingu frá Costa! Hazard og Costa voru tveir gegn sex varnarmönnum Southampton sem horfðu bara á.

Leikur hafinn: Lee Mason flautar til leiks!

Fyrir leik:

Chelsea nær sjö stiga forskoti á toppi deildarinnar með sigri í kvöld. Tottenham, sem er í 2. sætinu, mætir sjóðheitu liði Crystal Palace annað kvöld.

Fyrir leik:

Claude Puel, knattspyrnustjóri Southampton, gerir tvær breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Oriol Romeu og Sofiane Boufal koma inn fyrir Pierre-Emile Hojberg og Nathan Redmond.

Fyrir leik:

Eden Hazard, Diego Costa, Gary Cahill og Cesc Fábregas koma inn í byrjunarlið Chelsea frá 4-2 sigrinum á Tottenham í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á laugardaginn. Út fara Pedro, Willian, Nathan Aké og Michy Batshuayi.

Fyrir leik:

Góða kvöldið og velkomin í beina lýsingu frá leik Chelsea og Southampton í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×