Skoðun

Íhald + aðhald = afturhald

Torfi H. Tulinius skrifar
Viðreisn vakti von um stjórnmálahreyfingu heiðarlegra hægri manna sem vildu sátt milli eignafólks og annarra landsmanna. Nafnið vísaði til sjöunda áratugar síðustu aldar, þegar Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur hlúðu að menntun, velferð og framförum í lýðveldinu unga. Máske var leit að liðnum tíma límið milli Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Menn gátu ímyndað sér—og hlutaðeigandi kannski líka—að jafnaðarmaðurinn geðþekki Gylfi Þ. og íhaldsmaðurinn staðfasti Bjarni Ben eldri væru gengnir aftur í þeim Óttari og Benedikt. Þótt formaður Sjálfstæðisflokksins hafi verið staðinn að því að segja ósatt í fréttum fáum dögum áður, héldu þeir í tálsýnina og mynduðu með honum ríkisstjórn sem telur sér og öðrum trú um að standi fyrir frjálslyndi og umbætur.

En annað lím var fortíðarþránni yfirsterkara: stéttvísi auðmanna. Undanfarið hefur orðið æ ljósara að Óttarr, Björt og þingmennirnir tveir sem leiddu ríku frændurna til valda eru eins og illa sniðnir leppar sem ná ekki að hylja eðli ríkisstjórnarinnar sem birtist nú í fjármálaáætlun til fimm ára. Áætlun sú mun þrengja að velferð, heilbrigði, menntun, rannsóknum og nýsköpun um leið og hagvöxtur er meiri en í öðrum löndum OECD.

Fjármálaráðherra talar um aðhald, en heilbrigðisráðherra brosir vandræðalega og segir að ekki séu til peningar fyrir öllu. Auðvitað er gott að eyða ekki um efni fram og lækka skuldir. En í góðæri er ámælisvert að veikja áfram innviði góðs samfélags og stefna framtíð þess í hættu með því að svelta menntun, rannsóknir og nýsköpun.

Óttarr Proppé veit vel að peningarnir eru til. Það er hins vegar pólitísk stefna stjórnarmeirihlutans að halda auðlindagjöldum og fjármagnstekjuskatti í lágmarki og koma ekki á þriðja skattþrepi hálaunafólks. Þó myndi breytt skattkerfi standa undir nauðsynlegum útgjöldum til framfaramála. Í staðinn er ríkisstjórninni stýrt af hvötum þeirra ríku sem halda fast í peninga sína og standa í vegi fyrir framþróun. Aðhald Íhaldsins er því ekkert annað en afturhald.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×