Skoðun

Opið bréf til Óttars Proppé heilbrigðisráðherra

Sigríður Sía Jónsdóttir skrifar
Sæll, Óttarr.

Vegna ummæla landlæknis í fréttum fyrir helgina, um að þú lítir þannig á að Klíníkin í Ármúla sé ekki leyfisskyld frá þér, þar sem hún er eins og hver annar stofu­rekstur heilbrigðisstarfsmanna, ákvað ég að skrifa þér. Þú sagðir líka í fréttum eitthvað á þá leið að það væri bagalegt að ágreiningur væri á milli ráðuneytisins og Embættis landlæknis og að skoða þyrfti lögin og athuga hvort skýra þyrfti eitthvað nánar í þeim. Í hnotskurn snýst málið um hvort Klíníkin í Ármúla sé kölluð „starfsstofa heilbrigðisstarfsmanns“, sem ekki er leyfisskyld frá heilbrigðisráðherra, eða hvort hún sé skilgreind sem „sérhæfð heilbrigðistofnun / sérhæfð heilbrigðisþjónusta“ og þarf þá starfsleyfi frá heilbrigðisráðherra.

Fram undir þessa tíma, leyfi ég mér að fullyrða, hefur varla hvarflað að okkur sem höfum íslensku að móðurmáli, að þörf væri á að skilgreina orðin „sérhæfð heilbrigðisstofnun“ eða „sjúkrahús“ eða „starfsstofa heilbrigðisstarfsmanns“. Við stöndum því greinilega á tímamótum. Þessi sértæku orð koma öll fyrir í lögum um heilbrigðisþjónustu (nr. 40/2007). Þar segir um sérhæfða heilbrigðisstofnun: „Stofnun þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt.“

Um starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns segir: „Starfsstöðvar sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt með eða án greiðsluþátttöku ríkisins.“

Vandi á höndum

Hér er okkur landsmönnum vandi á höndum því að það hjálpar ekki einu sinni að „gúggla“ skilgreiningu á orðunum: sjúkrahús / spítali / sérhæfð heilbrigðisstofnun / sérhæfð heilbrigðisþjónusta eða starfsstofa heilbrigðisstarfsmanns, við lendum bara aftur í lögum Alþingis.

Skilgreining sem ég legg til um sérhæfða heilbrigðisstofnun er: „Stofnun sem veitir sérhæfða heilbrigðisþjónustu þar sem einstaklingar eru lagðir inn vegna veikinda eða skurðaðgerða. Einstaklingarnir eru þar í mislangan tíma en oftast að minnsta kosti yfir eina nótt. Þar starfar fagfólk sem veitir hjúkrunarmeðferð og læknismeðferð eftir þörfum, hvenær sólahrings sem er, ef einstaklingarnir sem liggja inni, þurfa á að halda.“ Rökin eru þau að öðrum veikindum fólks / skurð­aðgerðum er í dag sinnt (hægt að sinna) á starfsstofum úti í bæ.

Orðið „starfsstofa“ er í raun vandinn. Hvernig áttu að skilgreina hana? Ég legg til að þú notir þessa skilgreiningu: Starfsstofa heilbrigðisstarfsmanna er: „Heilbrigðisstarfsemi sem veitir heilbrigðisþjónustu á dagvinnutíma og hættir þjónustu eftir það, lokar dyrum og allir fara til síns heima. Þar er leyfilegt að gera aðgerðir / inngrip sem miðast við að ástand fólks leyfi að það fari samdægurs heim. Engin næturþjónusta er í boði á starfsstofu.“

Ég ráðlegg þér, heilbrigðisráðherra góður, að hlusta á rök landlæknis þegar kemur að starfsleyfi Klíníkurinnar í Ármúla. Jafnframt að þú hafir þessar skilgreiningar hér í þessu stutta bréfi mínu að leiðarljósi því að Klíníkin í Ármúla, þegar farið verður að leggja fólk þar inn, fellur undir skilgreininguna „sérhæfð heilbrigðisstofnun“.

Að endingu legg ég til að þú lögfestir, að skilyrði þess að reka „heilbrigðisstofnanir“ eða „starfsstofur“ hér á landi, sé að heilbrigðisþjónustan sé rekin án þess að borga megi sér arð, þ.e. ekki í hagnaðarskyni. (sbr. non-profit á ensku). Því hvað réttlætir að fólk geti grætt á veikindum annarra, hvort sem peningarnir koma úr vasa þess veika, eða úr vasa ríkisins?

Höfundur er doktorsnemi við Linné háskólann í Svíþjóð og er menntaður hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.




Skoðun

Sjá meira


×