Viðskipti innlent

Auka hlutafé Árvakurs um 400 milljónir króna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Eyþór Arnalds, fjárfestir og hluthafi í Þórsmörk.
Eyþór Arnalds, fjárfestir og hluthafi í Þórsmörk.
Hlutafé Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins, verður samkvæmt heimildum Markaðarins aukið um í kringum 400 milljónir króna á næstu vikum. Hlutafjáraukningin er langt á veg komin og taka núverandi eigendur félagsins þátt í henni.

Einkahlutafélagið Þórsmörk á 99 prósent af hlutafé Árvakurs. Samkvæmt skráningu útgáfufélagsins hjá Fjölmiðlanefnd er Ramses II ehf., í eigu Eyþórs Arnalds, fjárfestis og fyrrverandi bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Árborg, stærsti einstaki eigandi þess með 26,62 prósenta hlut. Félögin Hlynur A ehf. og Ísfélag Vestmannaeyja hf., bæði í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, útgerðarkonu í Vestmannaeyjum, koma þar á eftir með 16,38 prósent annars vegar og 13,43 prósent hins vegar.

Eyþór, sem fór inn í hluthafahópinn í byrjun apríl þegar hann keypti eignarhluti útgerðarfélaganna Samherja, Síldarvinnslunnar og Vísis í Þórsmörk, vildi ekki tjá sig um hlutafjáraukninguna og benti á að forkaupsréttur annarra hluthafa á bréfum fyrirtækjanna þriggja er enn virkur.

Árvakur tapaði 164 milljónum 2015 samkvæmt nýjasta ársreikningi félagsins. Árið þar á undan nam tapið 42 milljónum en uppsafnað tap Árvakurs frá 2009 nemur tæpum 1,5 milljörðum króna. Árið 2015 námu rekstrartekjur félagsins 3,1 milljarði króna samanborið við 2,7 milljarða árið áður. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var þá 44 prósent. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×