Viðskipti innlent

Glitnir hyggst greiða 2.700 milljónir króna í bónus til lykilmanna

Hörður Ægisson skrifar
Taconic og sjóður í eigu George Soros eru á meðal stærstu hluthafa Glitnis.
Taconic og sjóður í eigu George Soros eru á meðal stærstu hluthafa Glitnis. Fréttablaðið/Heiða
Eignarhaldsfélagið Glitnir HoldCo, sem var stofnað á grunni eigna slitabús Glitnis banka í kjölfar nauðasamninga í árslok 2015, áætlar að bónusgreiðslur til handa stjórnarmönnum og nokkrum lykilstjórnendum félagsins verði samanlagt 22,85 milljónir evra, jafnvirði um 2,7 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Glitnis fyrir árið 2016, sem hefur ekki verið gerður opinber en Markaðurinn hefur undir höndum, en bróðurparturinn af þeirri fjárhæð, eða um 74 prósent, rennur í skaut þriggja stjórnarmanna Glitnis.

Stjórn Glitnis HoldCo er skipuð þremur erlendum ríkisborgum og munu greiðslur og launatengd gjöld félagsins að óbreyttu nema um tveimur milljörðum króna vegna bónusa til þeirra. Sá bónus sem stjórnarmennirnir geta því vænst að fá að meðaltali í sinn hlut á mann nemur yfir 600 milljónum. Afgangurinn af bónuspottinum – samtals um 700 milljónir – fer til íslenskra lykilstjórnenda félagsins. Þar munar langsamlega mest um greiðslur til Ingólfs Haukssonar, forstjóra Glitnis Holdco, Snorra Arnars Viðarssonar, forstöðumanns eignastýringar, og Ragnars Björgvinssonar yfirlögfræðings.

Markaðurinn greindi frá því 8. mars síðastliðinn að lykilstjórnendur Glitnis væru búnir að vinna sér inn bónusgreiðslur sem næmu samtals á bilinu 1.175 til 1.720 milljónum, samkvæmt útreikningum blaðsins á þeim tíma, í samræmi við umfangsmikið bónuskerfi sem var samþykkt á hluthafafundi í mars 2016. Ljóst var hins vegar að bónuspotturinn ætti eftir að stækka talsvert samhliða frekari útgreiðslum til skuldabréfaeigenda en í lok mars var Glitnir búið að greiða þeim samtals um 1.270 milljónir evra.

Núna liggur fyrir, samkvæmt áætlunum Glitnis HoldCo, að heildarbónusgreiðslur, ásamt launatengdum gjöldum, verði sem fyrr segir um 23 milljónir evra. Það er nánast sama upphæð – í evrum talið – og íslenska eignaumsýslufélagið ALMC, áður Straumur-Burðarás fjárfestingabanki, greiddi í bónusa til um tuttugu þáverandi og fyrrverandi lykilstarfsmanna í desember 2015. Fjórir æðstu stjórnendur félagsins fengu um helminginn af þeirri fjárhæð í sinn hlut í bónus.

Ingólfur Hauksson er forstjóri Glitnis.
Samkomulag sem stjórn Glitnis gerði undir lok síðasta árs við fyrrverandi meðlimi slitastjórnar Glitnis er ástæða þess að lykilstjórnendur félagsins hafa nú þegar unnið sér inn háar bónusgreiðslur. Samkomulagið fól meðal annars í sér í eingreiðslu upp á 640 milljónir til Steinunnar Guðbjartsdóttur og Páls Eiríkssonar gegn því að 68 milljóna evra skaðleysissjóður yrði lagður niður og fjármunirnir þess í stað greiddir út til hluthafa. Ef ekki hefði komið til þess samkomulags hefðu stjórnendur Glitnis þurft að bíða lengur eftir að fá greiddan bónus í sinn hlut – og heildar­bónusgreiðslur hefðu sömuleiðis verið umtalsvert lægri.

Fram kemur í ársreikningi Glitnis að laun og þóknanir til stjórnarmanna og forstjóra Glitnis hafi verið samtals 1,9 milljónir evra, jafnvirði 230 milljóna króna, á árinu 2016. Aðalfundur Glitnis HoldCo fer fram í dag, miðvikudag, en samkvæmt tillögum sem hafa verið lagðar fyrir fundinn, og Markaðurinn hefur undir höndum, er lagt til að þóknun stjórnarmanna verði óbreytt frá fyrra ári. Þannig mun Bretinn Mike Wheeler því fá 525 þúsund evrur á ári fyrir sín stjórnarstörf á meðan Daninn Steen Parsholt og Norðmaðurinn Tom Grøndahl fá hvor um sig 350 þúsund evrur.

Stærsti einstaki hluthafi Glitnis er félag í stýringu bandaríska vogunarsjóðsins Taconic Capital sem eignaðist nýlega tæplega 10 prósenta hlut í Arion banka. Aðrir stórir hluthafar eru meðal annars Solus Alternative Asset Management og QPTF, sem er vogunarsjóður í eigu hins heimsþekkta fjárfestis George Soros.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×