Erlent

Trump tilkynnir skattalækkun í dag

Sæunn Gísladóttir skrifar
Donald Trump, bandaríkjaforseti, hefur lofað skattalækkunum.
Donald Trump, bandaríkjaforseti, hefur lofað skattalækkunum. Vísir/EPA
Búist er við því að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynni um skattaáætlun sína í dag. Bloomberg greinir frá því að hann muni tilkynna lækkun á fyrirtækjaskatti í 15 prósent, en það var eitt af kosningaloforðum hans.

Fyrirtækjaskattur er nú milli 15 og 35 prósent í Bandaríkjunum og töluvert hærri en í mörgum öðrum löndum. Áætlað er að ríkissjóður Bandaríkjanna verði af mörgum milljörðum dollara árlega vegna þess að fyrirtæki reyni að forðast þennan skatt.

Talið er að Trump muni leggja línurnar um hvaða skattabreytingar verði boðaðar í dag, en svo muni nákvæmar lýsingar á áformunum verða kynntar síðar þegar búið verður að ræða þær við starfsmenn ríkissjóðs og leiðtoga í þinginu.

Ekki eru allir á einu máli um lækkunina, Paul Ryan þingforseti vill til að mynda 20 prósenta skatt. Áætlanirnar eru kynntar á sérstökum tíma í bandarískum stjórnmálum, en stjórnmálamenn eru nú að reyna að komast að niðurstöðu um útgjöld til að koma í veg fyrir að loka þurfi hluta af ríkisstofnunum eftir helgi.

Á mánudaginn sagðist framkvæmdastjóri ríkissjóðs Bandaríkjanna sannfærður um að hagvöxtur gæti numið þremur prósentum að meðaltali eða meira í Bandaríkjunum á næstunni sem myndi, auk meira innstreymis frá aflandssvæðum, bera kostnaðinn af skattalækkununum.

Markaðir brugðust vel við fregnunum

Bandarískir hlutabréfamarkaðir tóku kipp í dag og náði Nasdaq vísitalan methæðum, yfir 6.000 stig í fyrsta sinn. Reuters greinir frá því að greiningaraðilar tengi hækkunina við góðar afkomur tæknifyrirtækja sem vega þungt í vísitölunni, en einnig við loforð Trump um að lækka skatta.

Aðrar vísitölur hækkuðu einnig í dag, Dow vísitalan náði yfir 21.000 stigum yfir daginn og var nálægt methæðum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×