Innlent

Seðlabankinn sakaður um fordæmalausa aðför

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Baldvin Þorsteinsson, framkvæmdastjóri  hjá Samherja.
Baldvin Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá Samherja.
Seðlabanki Íslands hefur ekki ákveðið hvort bankinn hyggist áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli útgerðarfélagsins Samherja gegn bankanum. Dómurinn ógilti fimmtán milljóna króna stjórnvaldssekt sem Seðlabankinn hafði lagt á útgerðina vegna brota á reglum um gjaldeyrismál.

„Nú munu lögmenn bankans fara vandlega yfir dóminn og forsendur hans og að því loknu verður tekin ákvörðun um viðbrögð bankans,“ segir í svari Seðlabankans við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Fram kemur í dómnum að Seðlabankinn hafði kært háttsemi Samherja til sérstaks saksóknara. Saksóknarinn hafði aftur á móti komist að þeirri niðurstöðu að Samherji gæti ekki borið refsiábyrgð á þeim brotum sem fyrirtækinu voru gefin að sök. Því yrði lögreglurannsókn á ætluðum brotum ekki hafin.

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag sakar sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, stjórnendur Seðlabankans um „fordæmalausa aðför“ að Samherja. „Eftir allan lúðrablásturinn, alvarlegu ásakanirnar og margra ára málarekstur stendur ekkert annað eftir en mörg hundruð milljóna króna kostnaður bankans og hróplegt vanhæfi stjórnenda til að fara með stjórnsýsluvald,“ segir Baldvin Þorsteinsson. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×