Enski boltinn

United þarf aftur að berjast við Real um De Gea í sumar sem gæti orðið dýrastur í sögunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Er De Gea á útleið?
Er De Gea á útleið? vísir/getty
Real Madrid ætlar sér að kaupa David De Gea, markvörð Manchester United, í sumar og þannig ganga frá verkefninu sem það setti af stað fyrir tveimur árum þegar mistök við skriffinsku var það sem kom í veg fyrir að De Gea færi til Madrídar.

Þetta kemur fram í grein The Telegraph í dag þar sem er sagt að Real Madrid ætli að gera De Gea að dýrasta markverði sögunnar en þessi 26 ára gamli leikmaður var á dögunum kjörinn besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar.

Real er talið þurfa að borga 50 milljónir evra fyrir Spánverjann en það er töluvert meira en Juventus borgaði fyrir Gianluigi Buffon. Hann kostaði 33 milljónir punda þegar Juventus keypti hann frá Parma árið 2001 en hann er enn þá í dag dýrasti markvörður sögunnar.

Því er haldið fram í grein The Telegraph að José Mourinho vilji alls ekki losna við De Gea en hann ætlar ekki að standa í vegi fyrir leikmönnum sem vilja fara. Þá er sagt að Portúgalinn sé byrjaður að líta í kringum sig og finna staðgengil fyrir De Gea.

David De Gea kom til Manchester United frá Atlético Madrid árið 2011 og hefur undanfarin ár verið einn allra besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×