Innlent

Aftur kosið í stjórn RÚV þar sem tveir eru ekki kjörgengir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sveitarstjórnarfulltrúar teljast ekki kjörgengir samkvæmt lögum, en Alþingi virðist ekki hafa áttað sig á því í gær.
Sveitarstjórnarfulltrúar teljast ekki kjörgengir samkvæmt lögum, en Alþingi virðist ekki hafa áttað sig á því í gær. Vísir/GVA
Alþingi mun aftur kjósa í stjórn Ríkisútvarpsins, þar sem tveir fulltrúar, sem kosnir voru í stjórnina í gær, eru ekki kjörgengir. Það eru þau Stefán Vagn Stefánsson, fulltrúi Framsóknarflokks í Skagafirði, og Kristín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.

Sveitarstjórnarfulltrúar teljast ekki kjörgengir samkvæmt lögum og verður því kosið um tvo nýja aðalmenn á þingfundi klukkan 15 í dag.

Stefán Vagn var kosinn í stjórnina sem einn fulltrúa Framsóknarflokksins en hann situr í bæjarstjórn Skagafjarðar. Þá var Kristín María kosin sem fulltrúi Viðreisnar en hún situr í bæjarstjórn Grindavíkur fyrir Lista Grindavíkinga. Skipting flokkanna mun hins vegar ekkert breytast í stjórn Ríkisútvarpsins. Þar eiga Sjálfstæðismenn þrjá fulltrúa en hinir flokkarnir einn fulltrúa hver fyrir sig. Stjórnarflokkarnir samtals fimm og stjórnarandstaðan fjóra fulltrúa.

Níu aðalmenn voru kosnir í stjórn RÚV á Alþingi í gær en kosið er til eins árs í senn. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er á meðal þeirra. Þá voru Brynjólfur Stefánsson, Jón Jónsson, Jón Ólafsson, Lára Hanna Einarsdóttir og Mörður Árnason kosin í stjórnina, auk Kristínar og Stefáns.

Þá var jafnframt kosið í bankaráð Seðlabankans í gær en nýir bankaráðsmenn eru Þórunn Guðmundsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Sveinn Agnarsson, Auður Hermannsdóttir, Björn Valur Gíslason, Þór Saari og Frosti Sigurjónsson.

Stjórn Ríkisútvarpsins ohf skipa nú:

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (A) Sjálfstæðisflokkur

Brynjólfur Stefánsson (A) Sjálfstæðisflokkur

Jón Jónsson (A) Sjálfstæðisflokkur

Kristín María Birgisdóttir (A) Viðreisn

Friðrik Rafnsson (A) Björt framtíð

Jón Ólafsson (B)  Vinstri græn

Lára Hanna Einarsdóttir (B) Píratar

Stefán Vagn Stefánsson (B) Framsókn

Mörður Árnason (B) Samfylkingin




Fleiri fréttir

Sjá meira


×