Enski boltinn

Sir Alex enn á ofurlaunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ferguson á spjalli við Gary Neville.
Ferguson á spjalli við Gary Neville. vísir/getty
Sir Alex Ferguson, fyrrum stjóri Manchester United, hefur það gott á efri árum og er enn að þéna háar upphæðir.

Ferguson hætti sem knattspyrnustjóri United árið 2013 eftir 26 ár í starfi þar sem félagið vann nánast alla titla sem í boði voru margsinnis.

Hann rekur sitt eigið fyrirtæki til að halda utan um starfssemi sína sem felst aðallega í því að koma opinberlega fram og flytja fyrirlestra.

Fyrirtækið skilaði sex milljóna punda hagnaði í fyrra, jafnvirði rúmlega 800 milljóna króna. Hann fær til að mynda tvær milljónir punda í laun fyrir 20 daga starf sem sendiherra Manchester United og allt að 100 þúsund pund fyrir hvern fyrirlestur.

Ferguson hefur áður sagt að hann hafi nóg að gera þrátt fyrir að hann sé ekki lengur knattspyrnustjóri.

„Ég vinn mikið. Þetta er annars konar vinna. Ég er með sendiherrastöðu hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sinni þjálfaramenntun hjá Knattspyrnusambandi Evrópu og með stöðu hjá Harvard háskólanum. Þá er ég í stjórnunarstöðu hjá Manchester United. Það er því mikið að gera.“

Samkvæmt ársreikningi ACF Sports Promotion, fyrirtæki Ferguson, var eiginfjárstaða þess rúmar fimmtán milljónir punda, jafnvirði tveggja milljarða króna, um mitt ár í fyrra.

Hagnaðurinn sem eftir stóð er svipuð upphæð og Ferguson var með í árslaun hjá Manchester United síðustu ár sín í starfi knattspyrnustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×