Erlent

Hrókeringar í ríkisstjórn Finnlands og ráðherrum fjölgað

Juha Sipilä er forsætisráðherra Finnlands og formaður Miðflokksins.
Juha Sipilä er forsætisráðherra Finnlands og formaður Miðflokksins. Vísir/AFP
Þrír nýir ráðherrar munu taka sæti í ríkisstjórn Finnlands og mun þeim fjölga úr fjórtán í sautján. Juha Sipilä, forsætisráðherra og formaður Miðflokksins, greindi frá þessu í gærkvöldi eftir viðræður stjórnarflokkanna um fjárlögin.

Ekki er ljóst á þessari stundu hverjir munu taka sæti í ríkisstjórninni, en hver stjórnarflokkanna þriggja mun taka ákvörðun um hver úr sínum röðum tekur við ráðherradómi. Finnskir fjölmiðlar greina frá því að búist sé við að tilkynnt verði um nýja ráðherra í næstu viku.

Málaflokkar munu sömuleiðis færast á milli flokkanna, þar sem Þjóðarbandalagið mun taka við dómsmálaráðuneytinu af Sönnum Finnum. Menningar- og íþróttamál verða tekin af kennslu- og menningarmálaráðherranum Sanni Grahn-Laasonen, Þjóðarbandalaginu, og færast málaflokkarnir til ráðherra Sannra Finna. Þá munu málaflokkar landbúnaðar- og umhverfismálaráðherrans Kimmo Tiilikainen, Miðflokknum, skiptast á tvo ráðherra.

Menningar- og íþróttamálaráðherrann verður jafnframt ráðherra Evrópumála, en sá málaflokkur mun fara frá utanríkisráðherranum Timo Soini frá Sönnum Finnum.

Miðflokkurinn, Þjóðarbandalagið og Sannir Finnar mynduðu saman borgaralega ríkisstjórn í maí 2015. Nítján ráðherrar voru í síðustu ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×