Bílar

Jaguar XF langbakur á leiðinni

Finnur Thorlacius skrifar
Jaguar XF Sportbrake.
Jaguar XF Sportbrake.
Jaguar er að fjölga í framleiðslulínu sinni og ætlar að bjóða XF bíl sinn í langbaksútfærslu og hyggst bjóða hann á flestum mörkuðum, meðal annars í Bandaríkjunum þar sem er mikill markaður fyrir bíla með mikið flutningsrými. Þessum bíl verður att gegn bílum eins og Mercedes E-Class langbaknum, BMW 5-línu langbaknum, Audi A4 Allroad og Volvo V60 og V90.

Jaguar segir að engu sé fórnað með þessari útfærslu bílsins, sem fær aukanafnið Sportbrake. Hann hafi sömu góðu aksturseigileikana og í hefðbundnum XF í sedan-útfærslu. Bíllinn fær sömu vélar og í þeim hefðbundna, fjögurra strokka dísilvél og V6 bensínvél með keflablásara. Ef eitthvað er á þessi bíll að vera ennþá fríðari sínum en sedan-útfærslan með hallandi afturlínu og því í ætt við Shooting Brake línu Mercedes Benz og fleiri slíkra bíla.

Það færir honum sportlegt yfirbragð og tilfinningu fyrir hraða. Hann verði samt miklu notadrýgri bíll með allt sitt flutningsrými. Það er spurning hvort að þessi útfærsla XF bílsins rati brátt að ströndum Íslands, en BL hefur hafið innflutning og sölu á Jaguar bílum fyrir skömmu. Þessi bíll bætist í flóru rúmgóðra bíla Jaguar eins og F-Pace jeppans sem nú þegar hefur fengið góðaar viðtökur um heim allan, meðal annars á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×