Viðskipti innlent

Íslenska gámafélagið hlaut ekki ríkisaðstoð í Gufunesi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísir/Heiða
Leigusamningur Reykjavíkurborgar við Íslenska gámafélagið á landi og fasteignum á Gufunessvæðinu var gerður á markaðskjörum að mati Eftirlitstofnunar EFTA.

„Íslenska Gámafélagið hafði ekki efnahagslegan ávinning af leigusamningum og þar af leiðandi veitti Reykjavíkurborg ekki ríkisaðstoð þegar samningurinn var gerður um Gufunes,“ er haft eftir Sven Erik Svedman, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), í tilkynningu frá ESA.

Árið 2015 hóf ESA rannsókn á því hvort um ríkisaðstoð fælist í samningnum eftir að kvörtun barst stofnuninni. Reykjavíkurborg eignast fasteignirnar árið 2002 og árið 2005 var gerður leigusamningur, án útboðs, við Íslenska gámafélagið.

Samningurinn fól í sér leigu, hreinsun og umsjón í Gufunesi sem og stuttan uppsagnarfrest. Samningurinn var framlengdur þrisvar sinnum og í maí 2016 var samningnum sagt upp. Borgin seldi í kjölfarið umræddar eignir á Gufunessvæðinu til kvikmyndavers.

Rannsókn ESA fólst í að meta hvort einkaaðili hefði gert samning á sömu markaðsforsendum og Reykjavíkurborg gerði. ESA skoðaði meðal annars samning um svipaða fasteign borgarinnar sem var leigð út eftir útboð. Sú fasteign var leigð út á talsvert lægra verði en Gufunes.

Þá framkvæmdi óháð fasteignasala mat á leigusamningnum sem gerður var árið 2005 og komst að því að leigan sem Íslenska gámafélagið greiddi var hærri en markaðsvirði á sínum tíma.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×