Skoðun

Stöðvum svikamylluna

Sigurður Eiríksson skrifar
Viðmið réttindaávinnslu í lífeyrissjóðakerfinu, sem er að 3,5% raunávöxtun náist að jafnaði, er ekkert nema svikamylla en jafnframt bráðsnjöll svikamylla. Það tryggir að vaxtagólf í landinu er margfalt hærra en í öllum viðmiðunarlöndunum og það þótt hér tíðkist að verðtryggja skuldir almennings en slíkt þekkist ekki í öðrum löndum.  Þessir háu vextir gera t.d. bankarekstur að barnaleik einum þar sem prentun peninga og aðgangur að erlendu lánsfé sem endurlánað er við ofurháu vaxtastigi er nánast án áhættu og skilar heilmiklum arði.

Nú eru birtar fréttir af því að raunávöxtun 3ja stórra lífeyrissjóða hafi verið neikvæð árið 2016.  Um er að kenna slæmu ári á hlutafjármarkaði og styrkingu krónunnar.  Þetta þýðir það að þrátt fyrir að eigendur lífeyrissjóðanna greiði okurvexti þá myndast ekki réttindi eins og ávöxtunarkrafan gerir ráð fyrir.  Það er nefnilega allt slæmt við þessa háu ávöxtunarkröfu.  

•    Hún hækkar vaxtastig í landinu sem gerir það að verkum að ríkissjóður, einstaklingar og fyrirtæki greiða margfalt hærri vexti en þeir þyrftu annars að gera.  

•    Hún hvetur lífeyrissjóðina í áhættusamar fjárfestingar en þeir hafa tapað gríðarlegum fjárhæðum á slíku undanfarin ár. 

•    Hún eykur óstöðugleika þar sem erlent fjármagn sækir í fjárfestingar hér innanlands en ekki í rekstri heldur í krónunni sjálfri, það er að segja verðtryggðum skuldabréfum sem þjóðin greiðir af.  Þetta innstreymi styrkir síðan gengi krónunnar en það er dýru verði keypt og tengist ekki verðmætasköpun á nokkurn hátt eins og það ætti að gera.  

Ef einhver er búinn að sjá eitthvað skynsamlegt í þessu kerfi þá má viðkomandi rétta upp hönd.  Við hin erum að því komin að rétta upp báðar hendur og gefast upp.  Þessi svikamylla er nefnilega að virka sérstaklega vel og færir þeim sem eiga (eða mega því þeir höndla með sameiginlega sjóði) arðinn af þjóðfélaginu jafnharðan og hann verður til.  

Og svo komum við að snilldinni í svikamyllunni.  Vinstri flokkar og verkalýðsfélög segjast vilja meiri jöfnuð lífskjara en vilja samt alls ekki hrófla við þessu kerfi.  Þeir éta það upp gagnrýnislaust að það sé jákvætt fyrir „þeirra fólk“ að viðhalda okurvöxtum í boði lífeyrissjóðanna.  Til þess að rýra ekki lífeyri fólks.

 

Ávöxtun lífeyrissjóða erlendis er reyndar víða sambærileg eða hærri en hér þrátt fyrir að réttindi séu jafnvel reiknuð út frá 0% - 0,5% og sjóðirnir því ekki virkir í að halda uppi vaxtastigi.  En hlutdeild lífeyriskerfis af fjármagnsmarkaði er einstaklega hátt hér á landi og myndar kerfið því virkt vaxtagólf innan hagkerfisins.

Jafnvel rétt nýóstofnaður Sósíalistaflokkur Íslands hefur skautað fram hjá vaxtalækkunum sem aðalatriði.  Þar gæti verið á ferðinni enn ein vel skipulögð atlagan að ekki neinu þótt auðvitað vonum við að svo sé ekki.  En allar aðgerðir til jöfnunar, stöðugleika og almenns uppgangs í atvinnulífi þjóðarinnar eru vonlausar verði vaxtastigið ekki lækkað.  Og það verður ekki lækkað nema með því að lækka ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna.  Vonandi sjá sósíalistar ljósið sem aðrir því ekki veitir af lóðum á vogarskálarnar.

Setjum sem svo að ávöxtunarkrafa þeirra væri 0,5% en ekki 3,5% eins og nú er.  Það er ekki ólíklegt að lífeyrissjóðirnir sæu sér hag í að lána sjóðfélögum til húsnæðiskaupa, gegn besta veðréttinum, á svipuðum vöxtum.  Allavega innan við 1% verðtryggt.  Það myndi nú aldeilis gjörbreyta þjóðfélaginu.  Minnka pressu á launahækkanir og jafnvel gera samkomulag um kjarabætur svo sem SALEK að raunhæfum kosti.  Einnig myndu vextir á lánum ríkisins innanlands lækka verulega samhliða.  Sem aftur myndi þýða aukna framkvæmdagetu og aukna getu til að greiða upp erlend og óhagstæðari lán.

Og fyrir þá sem ætluðu að segja: „En lífeyririnn okkar...“ þá minni ég á gríðarleg töp lífeyrissjóðakerfisins undanfarin ár og afkomu samsvarandi kerfa erlendis þar sem réttindin eru reiknuð út á annan hátt.  Það væri öllum hollt að hafa afkomu lífeyirssjóðanna jafnari og áhættuminni. Hávaxtakerfi viðheldur gríðarlegu misrétti milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekki, misrétti til náms, misrétti til húsnæðis og misréttis til allra annarra almennra lífsgæða.  

Stjórnmálaafl sem hefði ekkert annað á stefnuskránni en lækkun ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða í 0,5%, og tækist að standa við það, myndi líklega vinna stórvirki í heilbrigðismálum, atvinnumálum, samgöngumálum og félagsmálum á afar skömmum tíma.  En í stað þess að menn velti þessu fyrir sér í alvöru þá er þetta sett til hliðar sí og æ.  Hvers vegna skyldi það nú vera?  Það skyldi þó ekki vera fyrir það að „fjármagnið“ styður ekki svoleiðis baráttu á nokkurn hátt heldur rær lífróður fyrir óbreyttu kerfi.  Eigendur þess hafa það svo dæmalaust gott og áhyggjulaust á meðan ástandið er svona í boði lífeyrisréttinda alþýðunnar og við horfum á eignarhald fyrirtækja og húsnæðis í landinu færast á fáar hendur með ógnarhraða.

Hér á landi er fjölflokkakerfi við lýði.  Núverandi afætukerfi verður ekki brotið upp nema með baráttu fólks í gegn um fleiri en einn stjórnmálaflokk og fleiri en eitt verkalýðsfélag. En það er löngu kominn tími til að brjóta upp svikamylluna og bjóða okkur öllum upp á betra líf.




Skoðun

Sjá meira


×