Erlent

Sakaður um að stela hugmyndinni að vegglistaverki af Michelle Obama

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vegglistaverkið umdeilda í Chicago.
Vegglistaverkið umdeilda í Chicago. mynd/chris devins
Nýtt vegglistaverk í Chicago af fyrrverandi forsetafrúnni Michelle Obama hefur valdið nokkrum deilum síðan það listamaðurinn lauk við það síðastliðinn föstudag.

Ástæðan er sú að listamaðurinn, Chris Devins, er sakaður um að hafa stolið hugmyndinni að verkinu frá Gelila Mesfin sem er nemandi í listum frá Rhode Island. Devins er hins vegar vel þekktur listamaður í Chicago og hefur gert fjölda vegglistaverka í borginni.

Fjallað er um málið á vef CNN. Þar kemur fram að Mesfin hafi deilt sinni mynd, sínu verki, af Obama á Instagram-síðu sinni í nóvember. Vegglistaverk Devins er nánast alveg eins og mynd Mesfin en hún tjáði sig um málið á Instagram um helgina:

„Hvernig geturðu bara stolið listaverki einhvers og vinnu einhvers og látið eins og það sé þitt?“

Í athugasemdum við færsluna hneykslast margir á Devins en í viðtali við CNN í gær kvaðst hann ekki hafa gert neitt rangt. Hann sagðist ekki hafa vitað af mynd Mesfin fyrr en að honum var bent Instagram-færslu hennar.

„Ég skrifaði hana líka fyrir myndinni um leið. Það hefur mikið mætt á mér vegna þessa máls og það er í góðu lagi mín vegna að það haldi áfram svo lengi sem krakkarnir hafa vegglistaverk sem þeir geta litið upp til,“ sagði Devins.

Hann bætti við að hann hefði fengið hugmyndina að listaverkinu þegar hann sá mynd af Obama á Pinterest þar sem hún var sýnd sem egypsk drottning. Devins sagði að hann hefði ekki hugmynd um hvaðan sú mynd hefði komið.

Listaverkið er staðsett í hverfinu South Side í Chicago og er á vegg beint á móti grunnskóla sem Michelle Obama var í sem barn. Devins sagði að hann hefði viljað gera listaverk sem gæti verið innblástur fyrir ungar konur í hverfinu og í heiminum öllum.

Síðan ásakanir um stuldinn komu upp hefur Devins gætt þess að láta Mesfin getið í öllum færslum sínum á samfélagsmiðlum en hann fjármagnaði verkið í gegnum síðuna GoFundMe og safnaði alls 12 þúsund dölum. Hann sagðist ekki hafa talað sjálfur beint við Mesfin en að lögfræðingur væri nú að ræða við hana um greiðslu til hennar.

Hér má sjá myndina eftir Mesfin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×