Skoðun

Virkjum þann auð sem býr í háskólamenntuðu fólki

Erna Guðmundsdóttir skrifar
Í skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á vinnumarkaði á árunum 2016-2018 kemur ýmislegt áhugavert í ljós varðandi atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra.

Greining stofnunarinnar á atvinnuleysistölum sýnir að atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra, einkum háskólamenntaðra kvenna, hefur minnkað hægar undanfarin misseri en meðal fólks með minni menntun að baki. Staða háskólamenntaðra kvenna er mun verri en karla en í febrúar sl. var fjöldi háskólamenntaðra kvenna á atvinnuleysisskrá 677 en atvinnulausir háskólamenntaðir karlar voru 457 talsins. Það er ekki ásættanlegt að stórir hópar háskólamenntaðra séu atvinnulausir.

Hvað veldur?

Í skýrslu Vinnumálastofnunar eru tvær skýringar nefndar á þessari stöðu. Annars vegar sú að háskólamenntuðum á vinnumarkaði fjölgi hlutfallslega meira en fólki með minni menntun þegar nýir árgangar útskrifaðra háskólanema koma inn á vinnumarkaðinn, en þeir sem hætta vegna aldurs hafa að jafnaði minni menntun að baki. Hins vegar hafi störfum fyrir háskólafólk ekki fjölgað að sama skapi. Margra ára uppsöfnuð þörf sé fyrir fjölgun starfsfólks í mörgum starfsstéttum, einkum hjá ríki og sveitarfélögum, bæði til að vinna upp niðurskurð og aðhald áranna í kjölfar hruns en einnig til að mæta aukinni þjónustuþörf vegna m.a. fjölgunar aldraðra.

Þörf á breyttum áherslum

Nýsköpun og vísindi skipta sköpum við uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða. Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar um þennan málaflokk segir m.a. að myndarlega verði stutt við rannsóknir og þróun og hlutverk samkeppnissjóða víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina.

Hlutverk atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er að búa í haginn fyrir öflugt og framsækið atvinnulíf en tveir ráðherrar fara með málaflokka ráðuneytisins. Mikilvægt er að fulltrúar ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs – undir forystu ráðherranna – sameinist um að skapa ný störf fyrir háskólamenntaða með það að markmiði að draga úr atvinnuleysi þeirra. Því miður sýna dæmin að fjármagni er aðallega beint til verklegra framkvæmda í stað þess að nota það til atvinnuuppbyggingar fyrir háskólamenntað fólk. Þessu þarf að breyta.

Í menntun og hugviti liggur mikill auður sem mikilvægt er að virkja. Stjórnvöld þurfa að skapa skilyrði fyrir nýsköpun í atvinnulífinu sem stuðlar að fjölgun starfa fyrir þetta fólk. Einstaklingar verða að hafa hvata til að auka við þekkingu sína og skapa þannig samfélagsleg verðmæti. Verði ákjósanleg skilyrði ekki sköpuð getur það haft þau áhrif að yngri kynslóðir sjái sér ekki lengur hag í að fara í háskólanám.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×